Karlmaður á fertugsaldri sem veitti konu áverka með hníf á heimili hennar í gær hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og vegna þess að lögregla telur hættu á áframhaldandi brotastarfsemi. Gæsluvarðhaldið er til 13. júlí næstkomandi.
Maðurinn er grunaður um að hafa ráðist á konuna á heimili hennar miðsvæðis í Reykjavík í gær og er málið rannsakað sem tilraun til manndráps. Konan var flutt á slysadeild er ekki talin í lífshættu.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var konan leigusali mannsins og hefur hann margsinnis komið við sögu lögreglu.
Nokkur viðbúnaður var hjá lögreglu vegna málsins, enda óljóst í upphafi hvort fleiri væru inni á heimilinu. Maðurinn var handtekinn á vettvangi en ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.