Stjórnvöld í Teheran gáfu út handtökuskipun á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta og óskuðu eftir að stoð alþjóðalögreglunnar Interpol til að handsama hann í dag. Auk Trump vilja Íranir handtaka þrjátíu aðra Bandaríkjamenn sem þeir telja hafa staðið að drónaárás sem felldi íranskan herforingja í Bagdad í janúar.
Ali Alqasimehr, saksóknari í Íran, vill að Trump og aðrir sem áttu þátt í drónaárásinni sem varð Qassem Soleimani herforingja að bana 3. janúar svari til saka fyrir „morð og hryðjuverk“, að sögn íranska ríkisfjölmiðilsins IRNA.
Interpol hefur ekki tjáð sig um beiðni íranska saksóknarans, að sögn AP-fréttastofunnar. Ólíklegt sé að alþjóðalögreglan fallist á kröfuna þar sem reglur hennar banna að stofnunin taki þátt í aðgerðum sem teljast pólitískar.
Krafan er sögð endurspegla vaxandi spennu á milli Írans og Bandaríkjanna eftir að Trump rifti kjarnorkusamningnum sem heimsveldin gerðu við Íran.
Soleimani var einn æðsti yfirmaður íranska byltingarvarðarins. Bandarískir drónar skutu eldflaugum að bílalest Soleimani á flugvelli í Bagdad í Írak. Talið er að Soleimani hafi látist samstundist. Auk hans féll Abu Mahdi al-Muhandis, næstráðandi írösku hersveitanna sem nefna sig Lýðaðgerðasveitirnar og njóta stuðnings íranskra stjórnvalda, og fjórir aðrir.