Söng- og leikkonan Naya Rivera er talin af eftir að fjögurra ára sonur hennar fannst einn á báti úti á Piru-stöðuvatni í suðurhluta Kaliforníu.
Lögreglan á svæðinu segir að hin 33 ára gamla Rivera hafi stungið sér til sunds með syni sínum. Sonur hennar hafi komist aftur upp í bátinn, en ekki hún. Sonur hennar var í björgunarvesti, en hins vegar er talið að sjálf hafi hún ekki klæðst björgunarvesti, þar sem eitt slíkt fannst í bátnum.
Lögreglan í Ventura-sýslu fékk útkall vegna ungs barns sem var eitt á báti úti á vatninu í gær, og komst þannig á snoðir um málið. Ekki hafa verið gefnar út neinar upplýsingar um ástand drengsins.
The missing person at Lake Puru has been identified as Naya Rivera, 33, of Los Angeles. SAR operation will continue at first light. @VCAirUnit @fillmoresheriff @Cal_OES pic.twitter.com/bC3qaZS3Ra
— Ventura Co. Sheriff (@VENTURASHERIFF) July 9, 2020
Leitað hefur verið að Rivera í vatninu og við það. Notast hefur verið við þyrlur, dróna og kafara.
Rivera er best þekkt fyrir leik sinn í þáttunum Glee, sem nutu gríðarlega vinsælda um allan heim á árunum 2009 til 2015. Þar fór hún með hlutverk klappstýrunnar Santönu Lopez.