Sextíu herbergja hjúkrunarheimili mun rísa í Reykjanesbæ, gangi fyrirætlanir hins opinbera og bæjarfélagsins eftir. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, eru sögð hafa undirritað samning á dögunum þess efnis, en stefnt sé að því að heimilið verði tekið í notkun 2023.
Áætluð stærð nýja hjúkrunarheimilisins er um 3900 fermetrar og áætlaður framkvæmdarkostnaður er um 2.435 milljónir króna. Í tilkynningu sem almannatengslafyrirtæki sendir fyrir hönd Reykjanesbæjar segir að nýbyggingin muni rísa við hlið núverandi hjúkrunarheimlis á Nesvöllum - „og verður samtengd því í samræmi við áherslur Reykjanesbæjar,“ eins og það er orðað.
Rísi hjúkrunarheimilið myndi hjúkrunarrýmum í bæjarfélaginu fjölga um 30. „Hin 30 rýmin koma í stað þeirrar rýma sem nú eru í notkun hjúkrunarheimilinu á Hlévangi, en því verður þá lokað,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu.
Þar er þess jafnframt getið að framkvæmdin sé á höndum sveitarfélagsins, samkvæmt fyrrnefndum samningi. „Reykjanesbær annast fjármögnun framkvæmdakostnaðar en heilbrigðisráðuneytið greiðir sveitarfélaginu 85% kostnaðarins á árunum 2020-2023 í samræmi við framvindu verksins. Sveitarfélagið mun greiða 15% af framkvæmdakostnaði.“