Innlent

Hélt líf­láts­hótunum á­fram eftir árás á lög­manns­stofu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Landsréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms.
Landsréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms. Vísir/vilhelm

Landsréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni til 18. ágúst næstkomandi. Maðurinn er m.a. grunaður um hótanir gegn tveimur lögmönnum en rúmum mánuði áður hafði hann ruðst inn á lögmannsstofu í Reykjavík og tekið lögmann þar hálstaki.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. júlí segir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar hótanir mannsins gegn tveimur lögmönnum sem hafi starfað fyrir hann. Þá eru málavextir raktir en daginn áður, 20. júlí, hringdi annar lögmannanna í neyðarlínu og óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna hótana frá skjólstæðingi sínum. Stuttu síðar var maðurinn handtekinn og vistaður í fangaklefa á Hverfisgötu.

„Á leiðinni á Hverfisgötu hafi kærði sagt við lögreglumenn að þessir menn væru réttdræpir, hann kvæðist ætla að finna þá og drepa þá,“ segir í úrskurði.

Þá er haft eftir aðstoðarsaksóknara í úrskurðinum að rætt hafi verið við annan lögmanninn sem sagðist hafa verið í bænum þegar hann hafi fengið þrjú sms frá manninum. Í því fyrsta hafi staðið „Ég er á leiðinni heim til þín“ og í síðasta hafi staðið „Ég vil að þú verður viðstaddur þegar ég drep börnin þín“.

Hinn lögmaðurinn lýsti einnig líflátshótunum í sinn garð af hálfu mannsins. Maðurinn hafi játað að hafa sent umrædd skilaboð og hótað lögmönnunum.

Alvarlegar hótanir gagnvart barnsmóður

Þá eru rakin brot sem maðurinn er grunaður um að hafa framið á undanförnum vikum og mánuðum. Fyrst eru taldar alvarlegar hótanir og líkamsárás af hálfu ákærða er hann ruddist inn á lögmannsstofu í Reykjavík 9. júní síðastliðinn. Þar hafi hann tekið lögmann kverkataki og hótað starfsfólki lífláti.

Maðurinn er einnig grunaður um alvarlega líkamsárás á konu í maí, þar sem hann á að hafa slegið hana með hátalara í andlitið. Auk þess er hann grunaður um alvarlegar hótanir gagnvart barnsmóður sinni í nóvember og desember í fyrra en upptökur af „grófum hótunum“ eru sagðar liggja fyrir í málinu. Í þremur tilvikum sé að finna kynferðislega tilvísun. Maðurinn sæti nálgunarbanni gagnvart barnsmóður sinni.

Í greinargerð kemur fram að með vísan til brotaferils mannsins á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Var maðurinn þannig úrskurðaður í gæsluvarðhald til þriðjudagsins 18. ágúst. Landsréttur staðfesti svo þann úrskurð í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×