Útlendingar sem dvalið hafa hér á landi frá því fyrir 20. mars síðastliðinn en hafa ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar verður heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 10. september næstkomandi að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins.
Dómsmálaráðherra birti í dag nýja reglugerð sem tekur á dvöl þeirra útlendinga sem ekki hafa komist heim vegna kórónuveirufaraldursins frá 20. mars. Um er að ræða framlengingu á heimild sem upphaflega var bætt við reglugerð um útlendinga þann 2. apríl síðastliðinn.
Reglugerðin kemur ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum útlendingalaga.