Innlent

Margrét kjörin for­maður FÍR fyrst kvenna

Eiður Þór Árnason skrifar
Margrét Halldóra Arnarsdóttir hefur talað fyrir breytingum í störfum félagsins.
Margrét Halldóra Arnarsdóttir hefur talað fyrir breytingum í störfum félagsins. Vísir/Baldur

Margrét Halldóra Arnarsdóttir var í dag kjörin formaður Félags íslenskra rafvirkja, fyrst kvenna. Margrét hlaut afburðakosningu og mun taka við sem formaður á aðalfundi félagsins í apríl næstkomandi, er fram kemur á vef Rafiðnaðarsambands Íslands.

Félag íslenskra rafvirkja er aðildarfélag að Rafiðnaðarsambandi Íslands og telur félagið um 1800 félagsmenn. Margrét Halldóra er rafvirki og gegnir nú stöðu gjaldkera í stjórn félagsins.

Í byrjun febrúar var greint frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að aukin harka hafi færst í formannsbaráttu innan félagsins. Þá var búið að útiloka báða frambjóðendur til formanns frá skrifstofu og störfum félagsins fram að atkvæðagreiðslu.

Margrét sagðist þá í samtali við fréttastofu ekki standa jafnfætis Borgþóri Hjörvarssyni, sitjandi formanni, og sakaði hann um að hafa nýtt sér samskiptaleiðir innan félagsins til þess að ná til félagsmanna.

Borgþór sagðist einungis hafa nýtt sér gögn og tengiliði sem væru öllum aðgengileg á vef Rafiðnaðarsambandsins.

Í kosningabaráttunni talaði Margrét fyrir breytingum á störfum stjórnar og á kjarasamningi rafvirkja.

Nýr kjarasamningur félagsmanna Rafviðnaðarsambandsins, sem rafvirkjar eru aðilar að og Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka var samþykktur í maí í fyrra með 49% greiddra atkvæða en 47,6% sögðu nei.

Rafvirkjar voru verulega ósáttir við samninginn og segja að hann hefði verið felldur hefðu rafvirkjar setið einir að atkvæðagreiðslu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×