Innlent

Austan­stormur á­fram í kortunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Snjó hefur kyngt niður í höfuðborginni í morgun.
Snjó hefur kyngt niður í höfuðborginni í morgun. Vísir/vilhelm

Víða má búast við austanhvassviðri eða -stormi framan af degi en lægir smám saman sunnanlands. Snjókoma með köflum eða skafrenningur í dag, talsverð úrkoma á austanverðu landinu síðdegis og kalt í veðri. Þegar hefur snjóað talsvert á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Þá eru gular viðvaranir enn í gildi á nokkrum stöðum á landinu.

Hríðarviðvörun á Faxaflóa gildir þar til klukkan átta nú í morgun en verið hefur mjög hvasst og lélegt skyggni, til að mynda á Reykjanesi, Kjalarnesi, Akranesi og Borgarnesi. Ökumenn eru áfram hvattir til að sýna aukna aðgæslu.

Hríðarviðvörun á Suðausturlandi er í gildi til klukkan sjö í kvöld. Þar er búist við hvassviðri eða stormi með vindi allt að 28 m/s, hvassast í Öræfum þar sem vindstrengir geta farið yfir 35 m/s. Búast má við éljagangi og lélegu skyggni.

„Akstursskilyrði gætu orðið erfið og vegir ófærir, sérstaklega á Mýrdalssandi og í Öræfum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Á morgun verður áfram austanátt, allhvöss eða hvöss, og slydda eða snjókoma austan til og rigning við ströndina, en annars hægara og dálítil él. Hiti víða kringum frostmark. Hvessir talsvert á Suðausturlandi annað kvöld.

Á sunnudag er enn búist við austanstormi með úrkomu í flestum landshlutum, en heldur hlýnandi veðri.

„Veðurviðvaranir eru í gildi og nýjar verða líklega sendar út, sem gilda munu um helgina. Því um að gera að kanna vel veðurspár og færð áður en lagt er af stað,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Austan 10-18 m/s og snjókoma eða slydda með köflum á austanverðu landinu, hvassast og rigning úti við sjóinn, en annars hægara og dálítil él. Hiti kringum frostmark.



Á sunnudag:

Austan 13-20 m/s með snjókomu eða slyddu, en rigningu með austurströndinni og hiti víða 0 til 5 stig. Hægari vindur, þurrt að kalla og vægt frost vestanlands.



Á mánudag:

Hvassar austanáttir með úrkomu víða um land og hita kringum frostmark.



Á þriðjudag:

Suðlægar áttir með éljum, en hvassviðri og slydda við NA-ströndina. Hiti breytist lítið.



Á miðvikudag og fimmtudag:

Útlit fyrir austan- og suðaustanáttir með snjókomu eða slyddu og áfram svalt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×