Erlent

Kona á átt­ræðis­aldri lést af völdum kórónu­veirunnar í Bret­landi

Andri Eysteinsson skrifar
Fyrirmæli vegna kórónuveirunnar er að finna víðsvegar um Bretland.
Fyrirmæli vegna kórónuveirunnar er að finna víðsvegar um Bretland. Getty/Philip Toscano

Bresk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu í dag að kona á áttræðisaldri hafi látist af völdum COVID-19 sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur. BBC greinir frá því að konan hafi átt við heilsuvandamál að stríða og hafði hún reglulega þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna undirliggjandi sjúkdóma.

Konan var greind með kórónuvírus við innlögn á Royal Berkshire spítalann í Reading í gær. Talið er að hún hafi smitast í Bretlandi, þar sem ekki eru taldar líkur á að hún hafi ferðast erlendis undanfarnar vikur.

Fjöldi smitaðra í Bretlandi tók stórt stökk í gær þegar yfir 30 manns greindust með veiruna. Heildarfjöldi smitaðra þar í landi er nú 116.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, vottaði aðstandendum konunnar samúð sína og sagði að heilbrigðisstarfsfólk Bretlands ynni hörðum höndum að því að undirbúa frekari baráttu gegn veirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×