Körfubolti

Morris neitar því að hafa reynt að meiða Luka Doncic í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er erfitt að stoppa Luka Doncic en vonandi var leikmaður Los Angeles Clippers ekki að reyna að meiða hann viljandi í nótt.
Það er erfitt að stoppa Luka Doncic en vonandi var leikmaður Los Angeles Clippers ekki að reyna að meiða hann viljandi í nótt. AP/Ashley Landis

Luka Doncic er meiddur á ökkla en hann er að spila í gegnum meiðslin í úrslitakeppni NBA en það fór ekki í vel í hann eða aðra hjá Dallas þegar leikmaður Los Angeles Clippers steig á veika ökklann hans í nótt.

Luka Doncic hefur verið magnaður með liði Dallas Mavericks í sinni fyrstu úrslitakeppni í NBA-deildinni í körfubolta og það þrátt fyrir að spila meiddur.

Í fjórða leiknum, þegar Dallas liðið jafnaði metin í 2-2, þá var Luka Doncic með 43 stig, 17 fráköst, 13 stoðsendingar og sigurkörfuna á flautunni. Í nótt gekk Clippers liðinu betur að ráða við hann.

Atvik í þessum fimmta leik Los Angeles Clippers og Dallas Mavericks fékk hins vegar einhverja til að halda að leikmenn Los Angeles Clippers væru farnir að gera allt til að reyna að stoppa Luka Doncic. Marcus Morris steig á fót Doncic í leiknum.

Luka Doncic stóð á vellinum og var að bíða eftir því að fá boltann eftir körfu frá Clippers. Marcus Morris var að hlaupa til baka og hljóp að Doncic og steig á vinstri fót Doncic þannig að skórinn hans losnaði. Doncic er einmitt meiddur á vinstri ökkla.

„Ég spila leikinn með virðingu fyrir sjálfum mér og öðrum leikmönnum. Það að halda því fram að ég sé að reyna að meiða einhvern viljandi er algjört rugl,“ skrifaði Marcus Morris á Twitter eftir leikinn.

„Ég hef spilað í tíu ár á móti þeim bestu og ég stend með mínu siðferði og minni vinnusemi. Ég er keppnismaður og skil allt eftir á gólfinu í hverjum leik,“ skrifaði Morris og bætti við í annarri færslu.

„Körfubolti hefur aldrei verið það mikil alvara að maður reyni að meiða einhvern. Ég biðst ekki afsökunar á neinu því ég veit hvað ég legg á mig á hverjum degi. Þetta voru mistök, sættið ykkur við það. Ég spila leikinn til að keppa,“ skrifaði Marcus Morris á Twitter

„Ég vil ekki tala við hann. Hann er að segja ljóta hluti við mig allan leikinn. Ég verð bara að halda áfram. Allir hafa sína eigin skoðun. Ég vona að þetta hafi ekki verið viljandi því þá væri það mjög slæmt,“ sagði Luka Doncic eftir leikinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×