Skoðun

Skoska leiðin tekur flugið

Berglind Harpa Svavarsdóttir skrifar

Í vikunni var Loftbrúin kynnt á sama tíma og hún tók gildi en fram til þessa hefur hún gjarnan verið kennd við skosku leiðina Loftbrúin veitir afsláttarkjör á flugi til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni. Forsaga verkefnisins nær til sumarsins 2017 þegar Jón Gunnarsson, þáverandi samgönguráðherra stofnaði starfshóp sem átti að skoða hvaða valkostir væru í stöðunni til að efla innanlandsflugið og flugvallakerfi landsins. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leiddi vinnu hópsins sem skilaði af sér viðamikilli skýrslu í lok árs 2018. Meðal tillagna hópsins var að:

„Skilgreind verði svæði landsins þar sem íbúar sem ferðast í einkaerindum njóta 50% niðurgreiðslu á flugfargjöldum til og frá svæðinu, þó að hámarki órar ferðir (8 leggir) á hvern einstakling á meðan reynsla er að komast á kerfið.“

Niðurstaðan var að skoska leiðin yrði farin og innanlandsflugið yrði hluti af almenningssamgöngum landsins. Í útfærslunni sem var kynnt í flugstöðinni á Egilsstaðarflugvelli er gert ráð fyrir 40% afslætti af flugmiðanum og þrjár ferðir á ári (sex flugvellir). Svona gerast hlutirnir og við á landsbyggðinni uppskerum. Við fögnum því þessum tímamótum sem munu jafna aðstöðumun okkar sem búum fjarri höfuðborginni.

Hver verða svo þau áhrif sem loftbrúin mun hafa í för með sér. Hún hefur án efa áhrif á val fólks um að taka loks skrefið og flytja út á land, þannig losnar um þann flöskuháls sem hefur verið við lýði hjá landsbyggðinni að fjölskyldur hafa veigrað sér við því að flytja austur á land vegna þess hve dýrt innanlandsflugið hefur verið. Kostnaðurinn hefur jafnast á við að einstaklingur frá Reykjavík skelli sér erlendis í borgarferð með gistingu en einstaklingur á landsbyggðinni hefur einungis komist suður fyrir sömu fjárhæð og ef til vill dýrara í flestum tilvikum.

Við hvetjum því fólk um allt land til að kynna sér kjör loftbrúarinnar og bjóðum þau velkomin í nýtt sameinað sveitarfélag. Horfum fram í tímann og tökum á móti þeim fjölskyldum sem munu nú kjósa að flytja austur á land. Nóg framboð verður að vera á íbúðarhúsnæði, góðri grunnþjónustu, nægum leikskólaplássum og fjölbreyttum atvinnutækifærum.

Sjálfstæðisflokkurinn í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi veit hversu mikilvægt er að hafa þessa grunnþætti í lagi og munum leggja mikla áherslu á að vinna að þeim hratt og örugglega í öllum þeim byggðakjörnum sem nú sameinast undir einni sveitarstjórn.

Verið velkomin í nýtt sameiginlegt sveitarfélag á Austurlandi.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi.




Skoðun

Sjá meira


×