Körfubolti

Fórnar því að vera viðstaddur fæðingu sonarins fyrir leiki í úrslitakeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gordon Hayward kom aftur inn í lið Boston Celtics í síðasta leik og Jayson Tatum var sáttur með það.
Gordon Hayward kom aftur inn í lið Boston Celtics í síðasta leik og Jayson Tatum var sáttur með það. Getty/Kevin C. Cox

Leikmenn NBA-deildarinnar mega ekki yfirgefa „NBA-bubbluna“ í Disneygarðinum á Flórída. Sumir þurfa því að taka stóra og persónulega ákvörðun þegar þeir eru að verða pabbar í miðri úrslitakeppninni.

Boston Celtics leikmaðurinn Gordon Hayward á von á barni með eiginkonu sinni á sama tíma og hann er á fullu með Boston Celtics liðinu í úrslitakeppninni. Eiginkonan hans hefur nú komið einu á hreint.

Gordon Hayward hefur misst af mörgum leikjum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í ár vegna meiðsla en hann ætlar ekki að missa af fleirum jafnvel þótt að hann sé að verða faðir á næstunni.

Allir leikmenn NBA-deildarinnar eru staddir í svokallaðir „bubblu“ og hafa verið þar í marga mánuði. Leikmenn þurfa að fara í sóttkví fari þeir út úr „bubblunni“ í Disney World.

Gordon Hayward er nýkominn til baka eftir mánaðarfjarveru vegna ökklameiðsla. Boston tapaði án hans á móti Miami Heat í fyrstu tveimur leikjunum í úrslitum Austurdeildarinnar en minnkaði muninn í 2-1 í hans fyrsta leik. Það munaði greinilega um endurkomu Gordon Hayward sem var með 6 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta í leiknum.

Eiginkona Gordon Hayward á von á sér í lok þessa mánaðar. Hayward ætlaði að yfirgefa bubbluna og vera hjá henni en hefur nú breytt um skoðun. Hefði Hayward yfirgefið „NBA-bubbluna“ þá hefði hann örugglega misst af leikjum í úrslitakeppninni.

„Nei ég er ekki með hríðir. Þegar ég vil segja frá því að þessi strákur sé kominn í heiminn þá geri ég það. Þangað til vinsamlega hættið að tala um það. Gordan mun ekki yfirgefa bubbluna til að vera viðstaddur fæðinguna svo hættið að spyrja um það líka. Takk fyrir,“ skrifaði Robyn Hayward, eiginkona Gordon Hayward, á Instagram.

Gordon og Robyn Hayward eiga saman þrjár stelpur en þetta verður fyrsti strákurinn. Stelpurnar þeirra eru hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×