Körfubolti

Hetjuframmistaða hjá nýliðanum og Miami einum sigri frá úrslitunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyler Herro átti stórleik gegn Boston Celtics í nótt.
Tyler Herro átti stórleik gegn Boston Celtics í nótt. getty/Kevin C. Cox

Tyler Herro var hetja Miami Heat þegar liðið sigraði Boston Celtics, 112-109, í úrslitum Austudeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Miami er 3-1 yfir í einvíginu og vantar aðeins einn sigur í viðbót til að komast í úrslit NBA í fyrsta sinn í sex ár.

Herro skoraði 37 stig sem er met hjá nýliða Miami í úrslitakeppni. Hann er aðeins annar tvítugi leikmaðurinn í sögu úrslitakeppni NBA sem skorar 37 stig eða meira í leik. Hinn er sjálfur Magic Johnson sem skoraði 42 stig þegar Los Angeles Lakers tryggði sér NBA-meistaratitilinn með sigri á Philadelphia 76ers í sjötta leik liðanna í úrslitaeinvíginu 1980.

Herro hitti úr fjórtán af 21 skoti sínu utan af velli og skoraði fimm þriggja stiga körfur. Sautján af 37 stigum Herros komu í 4. leikhluta.

Jimmy Butler skoraði 24 stig fyrir Miami og tók níu fráköst, Goran Dragic skilaði 22 stigum og Bam Adebayo var með 20 stig og tólf fráköst.

Jaylen Brown minnkaði muninn í þrjú stig, 107-104, fyrir Boston þegar hann setti niður þriggja stiga körfu þegar sextán sekúndur voru eftir. En Herro kláraði svo leikinn á vítalínunni.

Eftir að hafa mistekist að skora í fyrri hálfleik reif Jayson Tatum sig upp í þeim seinni og skoraði þá 28 stig fyrir Boston. Hann tók einnig níu fráköst. Brown skoraði 21 stig og Kemba Walker 20. Boston verður að vinna fimmta leikinn gegn Miami á föstudaginn til að eygja von um að komast í úrslitin.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×