Erlent

Ráðuneyti samþykkir að selja vopn til Taívan

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Taívan héldu upp á þjóðhátíðardag Taívan á laugardaginn.
Íbúar Taívan héldu upp á þjóðhátíðardag Taívan á laugardaginn. AP/Chiang Ying-ying

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur samþykkt að selja ýmiss háþróuð vopn til Taívan. Málið hefur þó ekki enn verið formlega sent til þingsins til staðfestingar en það hefur þegar reitt ráðmenn í Peking til reiði. Það að salan hafi verið samþykktar af ráðuneytinu mun að öllum líkindum auka spennuna á milli Kína og Bandaríkjanna enn frekar.

Meðal þess sem stendur til að selja til Taívan eru skynjarar, drónar, margar gerðir eldflauga sem beinast gegn skotmörkum á jörðu og skipum, tundurdufl og annað, samkvæmt heimildarmönnum Reuters.

Ráðuneytið vill ekki staðfesta fregnirnar fyrr en tillaga að vopnasalan verður formlega send til þingsins. Fyrst verður málið þó á borði utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar sem getur komið í veg fyrir vopnasölu.

Hernaðarsérfræðingar í Bandaríkjunum hafa áhyggjur af því að nútímavæðing herafla Kína hafi aukið sjálfsöryggi ráðamanna í Peking verulega. Svo mikið að þeir telji sig geta tekið Taívan með valdi, eins og forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa hótað að gera.

Yfirvöld í Kína líta á Taívan sem eigið landsvæði. Taívan hefur þó verið með heimastjórn frá 1950 og er í reynd sjálfstætt þrátt fyrir að hafa aldrei lýst formlega yfir sjálfstæði frá Kína.

Sjálfstæðissinnum hefur þó verið að vaxa ásmegin í Taívan á undanförnum árum.

Zhao Lijian, talsmaður Utanríkisráðuneytis Kína, sagði Reuters að vopnasala Bandaríkjanna til Taívan myndi skaða samband ríkjanna verulega og ógna öryggi og fullveldi Kína. Hann hvatti ráðamenn í Bandaríkjunum til að hætta við að selja Taívan vopn og segir að Kínverjar muni bregðast við.

Eins og áður segir er mikil spenna á svæðinu. Kínverjar hafa haldið mikið af her- og flotaæfingum og Bandaríkin hafa sömuleiðis aukið viðveru herskipa og fylgst náið með æfingum Kínverja úr njósnavélum.

Nokkrum sinnum hefur kínverskum orrustuþotum og sprengjuflugvélum verið flogið inn í lofthelgi Taívan.

Tsai Ing Wen, forseti Taívan, lýsti því yfir um helgina að hún vonaðist til þess að hægt væri að draga úr spennu á milli Taívan og Kína. Hún hvatti ráðmenn í Peking til að hlusta á áhyggjur íbúa Taívan og breyta nálgun þeirra gagnvart eyríkinu.

Vísaði hún í ræðu Xi Jinping, forseta Kína, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hann sagði Kínverja ekki sækjast eftir yfirráðum.


Tengdar fréttir

Gagnrýnir Kína harðlega fyrir heræfingar

Tsai Ing-wen, forseti Taívan, segir það að kínverskum herþotum hafi verið flogið að eyríkinu tvisvar sinnum á síðustu dögum, sé til marks um þá ógn sem ríkjum í austurhluta Asíu stafi af Kína.

Segja Kína ekki geta ráðist á Taívan strax

Varnarmálaráðuneyti Taívan segir að þó að geta herafla Kína hafi aukist til muna, hafi Kínverjar enn ekki burði til að gera allsherjar innrás í Taívan.

Skutu eldflaugum í Suður-Kínahaf

Her Kína skaut í gær eldflaugum í Suður-Kínahaf, degi eftir að Bandaríkin flugu njósnaflugvél yfir svæðið, þar sem flotaæfingar Kínverja fara nú fram. Meðal eldflauganna sem skotið var á loft voru eldflaugar sem eru hannaðar til að granda flugmóðurskipum í allt að fjögur þúsund kílómetra fjarlægð.

Spenn­an stig­magn­ast í Ta­í­vans­und­i

Undanfarnar þrjár vikur hafa yfirvöld í Kína tilkynnt fjórar nýjar heræfingar við strendur landsins. Æfingarnar, og aðrar, eru sagðar vera til komnar vegna „öryggisástandsins hinum megin við Taívansund“.

Vilja kaupa háþróaða dróna af Bandaríkjunum

Ríkisstjórn Taívan á í viðræðum við Bandaríkin um að kaupa minnst fjóra hátækni hernaðardróna. Gangi viðræðurnar etir yrði það í fyrsta sinn sem eyríkið kaupir slík vopn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×