Erlent

Reikna með ári í við­bót og átta milljón spítala­inn­lögnum í Bret­landi

Eiður Þór Árnason skrifar
1.144 hafa nú greinst með kórónuveiruna í Bretlandi og hafa alls 21 látið lífið.
1.144 hafa nú greinst með kórónuveiruna í Bretlandi og hafa alls 21 látið lífið. Vísir/AP

Gert er ráð fyrir því að faraldur kórónuveirunnar í Bretlandi muni vara fram á næsta vor og gæti leitt til þess að 7,9 milljónir manna verði lagðir inn á sjúkrahús.

Þetta kemur fram í leynilegri samantekt breskra heilbrigðismálayfirvalda sem The Guardian hefur undir höndum.

Er þetta sagt vera í fyrsta skipti sem forsvarsmenn þeirra sjáist viðurkenna að faraldurinn geti varið í tólf mánuði til viðbótar.

Benda gögnin til þess að bresk yfirvöld geri ráð fyrir því að allt að áttatíu prósent Breta muni sýkjast af veirunni fyrir lok þess tímabils.

Chris Whitty, helsti heilbrigðisráðgjafi breskra stjórnvalda, hefur áður lýst þeirri tölu sem verstu mögulegu útkomu og sagt að hið raunverulega smithlutfall ætti eftir að reynast lægra.

Að sögn The Guardian kemur það hins vegar skýrt fram í samantekinni að gert sé ráð fyrir því að áttatíu prósent þjóðarinnar fái veiruna.

„Reiknað er með því að allt að áttatíu prósent þjóðarinnar muni sýkjast af COVID-19 á næstu tólf mánuðum og allt að fimmtán prósent (7,9 milljónir manns) gæti þarfnast innlagnar á sjúkrahús,“ segir í skjalinu.

1.144 hafa nú greinst með kórónuveiruna í Bretlandi og hafa alls 21 látið lífið af völdum hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×