Ítalski flugvélaframleiðandinn Tecnam og breski hreyflaframleiðandinn Rolls Royce hafa tekið höndum saman um að þróa tveggja hreyfla rafmagnsflugvél. Flugvélin kallast P-Volt og verður í flokki smærri farþegavéla fyrir styttri og meðallangar flugleiðir.
Rafmagnsflugvélin verður byggð á grunni hinnar ellefu sæta Tecnam P2012-vélar ítalska fyrirtækisins. Hún er hugsuð sem fjölnota flugvél; sem níu sæta farþegavél, fraktvél, sjúkraflugvél eða til sérhæfðra verkefna. Miðað við stærð gæti hún hentað rekstri íslenskra flugfélaga eins og Ernis, Mýflugs og Norlandair.

Fyrirtækin Tecnam og Rolls Royce gefa annars lítið upp um tæknilega eiginleika flugvélarinnar. Þau segja ekkert um hraða hennar né flugþol, né hvenær ætlunin sé að hún verði tilbúin. Segjast þó stefna að því að þetta verði fyrsta rafmagnsflugvélin af þessari stærð sem komi í almenna notkun og að hún verði áreiðanlegri, viðhaldsminni, endingarbetri og mun hagkvæmari en hefðbundnar flugvélar.
Tecnam og Rolls-Royce voru áður komin í samstarf með austurríska vélaframleiðandanum BRP-Rotax um þróun lítillar einshreyfils fjögurra sæta hybrid-flugvélar. Sú vél er einnig byggð á grunni bensínknúinnar Tecnam-vélar.
Tecnam hefur sérhæft sig í smíði smærri flugvéla og skapað sér gott orð á því sviði. Þannig keypti Flugskóli Íslands fyrir fimm árum fjórar nýjar 2ja sæta Tecnam-kennsluvélar beint frá verksmiðjunum en þær eru staðsettar norðan við Napóli. Þá er Flugskólinn Geirfugl, stærsti flugklúbbur landsins, með fjögurra sæta Tecnam-vél.

Rolls Royce, sem er næststærsti framleiðandi flugvélahreyfla í heiminum, vinnur að öðru athyglisverðu þróunarverkefni á sviði rafmagnsflugs; að smíða nægilega öflugan hreyfil til að setja hraðamet á rafmagnsflugvél. Verkefnið kallast ACCEL og er unnið í samstarfi við rafvélaframleiðandann YASA og flugþróunarfélagið Electroflight.

Fyrirtækin hafa þegar sýnt myndband af uppkeyrslu á 500 hestafla rafmagnshreyfli framan á flugvélargrind vélar sem kallast „IonBird“. Stefnt er að fyrsta flugi snemma á næsta ári og er vonast til að rafmagnsflugvélin nái yfir 300 mílna hraða, eða yfir 480 kílómetra hraða á klukkustund.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá því í júní þegar einshreyfils níu-sæta rafmagnsflugvélin MagniX flaug í fyrsta sinn: