Erlent

Cummings hyggst hætta fyrir árs­lok

Atli Ísleifsson skrifar
Dominic Cummings hefur verið einn nánasti ráðgjafi forsætisráðherrans Boris Johnson síðustu ár.
Dominic Cummings hefur verið einn nánasti ráðgjafi forsætisráðherrans Boris Johnson síðustu ár. Getty

Dominic Cummings mun láta af störfum sem helsti ráðgjafi breska forsætisráðherrans Boris Johnson fyrir árslok. Mikil átök hafa verið í stjórnarliði Johnsons síðustu vikurnar og er talið að afsögnin muni draga eitthvað úr áhrifum Brexit-harðlínumanna innan breska stjórnarheimilisins.

BBC hefur eftir Cummings að orðrómur um að hann hafi nýverið hótað því að hætta væru hugarburður einn, en að fyrirætlanir sínar, sem hann tíundaði í bloggfærslu frá í janúar síðastliðinn, um að hann vonaðist til að láta af störfum fyrir árslok 2020 ættu enn við.

Cummings er talinn hafa verið einn helsti skipuleggjandi Brexit-herferðarinnar og er sömuleiðis talinn hafa stuðlað að miklum kosningasigri Johnsons á síðasta ári.

Greint var frá því í gær að Lee Cain, samskiptastjóri Johnsons, annar harður Brexit-sinni og náinn starfsmaður Cummings, væri hættur störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×