Erlent

Boris Johnson sendur í einangrun

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. EPA/Simon Dawson

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er kominn í einangrun eftir að hafa átt í samskiptum við þingmann sem var smitaður af Covid-19. Johnson segir að smitrakningarteymi heilbrigðisyfirvalda í Bretlandi hafi haft samband við sig í dag en hann kveðst ekki finna fyrir neinum einkennum.

Johnson varði um 35 mínútum með þingmanninum Lee Anderson á fimmtudaginn, sem síðar greindist smitaður. Forsætisráðherrann greindist sjálfur með Covid-19 í mars sl. og lá inni á sjúkrahúsi um tíma.

Forsætisráðuneytið hefur gefið til kynna að til greina komi að herða aðgerðir í Bretlandi enn frekar á næstu vikum. Tilkynning um þetta lá fyrir áður en í ljós kom að Johnson yrði sendur í einangrun.

Í tilkynningunni sagði meðal annars að Johnson mynd stýra „lykilfundum vegna Covid“ og myndi vinna með Rishi Sunak fjármálaráðherra að endurskoðun útgjalda ríkisins í ljósi stöðunnar, með það að markmiði að efna loforð sitt um að „byggja [efnahagslífið] betur upp á nýtt,“ að því er segir í frétt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×