Körfubolti

Nets-tví­­eykið er farið af stað, Giannis á eftir að skrifa undir og ó­vænt stjarna hjá Lakers

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kevin Durant og Kyrie Irving léku í fyrsta sinn saman hjá Brooklyn Nets þann 13. desember.
Kevin Durant og Kyrie Irving léku í fyrsta sinn saman hjá Brooklyn Nets þann 13. desember. Sarah Stier/Getty Images

Eftir vægast sagt stutt „sumarfrí“ eru lið NBA-deildarinnar í körfubolta farin að undirbúa komandi tímabil. Þann 12. des hófu liðin að leika æfingaleiki og eru nokkrir hlutir sem vekja strax athygli.

Þar ber hæst að Brooklyn Nets-tvíeykið er þegar byrjað að stilla saman strengi. Hér er um að ræða þá Kevin Durant og Kyrie Irving, sá fyrrnefndi hefur ekki leikið í 18 mánuði. Durant lék 24 mínútur í fimm stiga sigri Nets á Washington Wizards í fyrsta æfingaleik tímabilsins.

Lokatölur leiksins 119-114 þar sem Durant skoraði 15 stig, tók þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Irving skoraði 18 stig og gaf fjórar stoðsendingar á þeim 17 mínútum sem hann lék.

Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig Steve Nash gengur í sínu fyrsta starfi sem þjálfari en ef þeir Durant og Irving verða upp á sitt besta í vetur má reikna með fantagóðu Brooklyn-liði.

Meistarar Los Angeles Lakers hafa unnið nágranna sína í Clippers tvívegis nú á þremur dögum. Hvorki LeBron James né Anthony Davis hafa leikið með liðinu til þessa. Fyrri leikinn van Lakers 87-81 en þann síðari 131-106.

Í síðari leik liðanna var það hinn tvítugi Talen Horton-Tucker sem stal senunni. Hann lék 41 mínútu og gerði 33 stig ásamt því að tíu fráköst. Enginn leikmaður vallarins skoraði fleiri stig né tók fleiri fráköst.

Var hann einnig stigahæstur í fyrri leiknum, þá með 19 stig.

Milwaukee Bucks og Dallas Mavericks eru búin með einn af tveimur æfingaleikjum sínum. Þó svo að Giannis Antetokounmpo hafi verið með tvöfalda tvennu - 25 stig og tíu fráköst - þá vann Dallas samt tíu stiga sigur, 112-102.

Athygli vekur þó að Giannis á enn eftir að skrifa undir framlengingu á samningi sínum við Bucks. Ef hann skrifar ekki undir fyrir 21. desember getur hann samið við annað lið næsta sumar.

Hjá Dallas var Luka Dončić að sjálfsögðu stigahæstur í liði Dallas með 13 stig á þeim 16 mínútum sem hann lék. Kristaps Porziņģis var hvergi sjáanlegur í liði Dallas.

NBA-deildin fer af stað á nýjan leik þann 23. desember og þá fyrst skiptir máli hvernig leikur Lakers og Clippers fer en liðin mætast strax í fyrstu umferð deildarinnar.

Deildinni er þannig skipt upp á komandi tímabili að fyrri hluti hennar verður leikinn 22. desember til 4. mars. Þá kemur hlé vegna Stjörnuleiksins og öllu sem honum tilheyrir. Síðari hluti tímabilsins fer fram frá 11. mars til 16. maí og frá 22. maí til 22. júlí er úrslitakeppnin á dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×