Landmannaafréttur hefur gjarnan verið tekinn sem dæmi hjá þeim sem vilja friða hálendið gagnvart sauðfjárbeit. Þetta er svæðið að Fjallabaki sem Land- og Holtamenn nytja en við fylgdum þeim í fjárleitum í haust, eins og fjallað var um í fréttum Stöðvar 2.
„Við erum bara ekki á sama máli og til dæmis Landgræðslan. Meðan landið er í framför þá teljum við okkur nýta landið rétt,“ segir Erlendur Ingvarsson, bóndi í Skarði í Landsveit.
„Það er svo fráleitt sem margir halda að það sé verið að ganga á afréttinn. Því það sjá það allir að hann er í mikilli framför,“ segir Geir Ófeigsson úr Næfurholti á Rangárvöllum.

„Við erum með stuttan tíma hérna inni á fjalli. Við förum hér um 10. júlí. Þetta eru sextíu dagar sem við erum að nýta þetta.
En grösin hérna inn frá eru mjög kjarnmikil á þeim tíma og eru okkur mjög mikilvæg í okkar búskaparferli,“ segir Erlendur.
Kristinn Guðnason fjallkóngur bendir á að bændur hafi í fimmtán ár staðið að uppgræðslu.
„Hér sérðu: Við erum að græða hér upp samfara beitinni,“ segir Kristinn og bendir á svæðin í kringum Áfangagil, og bætir við að það sé í samstarfi við Landgræðsluna.

„Þó að manni finnist landgræðslustjóri stundum ekki vera í sama liði og við,“ segir fjallkóngurinn.
„Við erum með umráðaréttinn – nytjaréttinn á þessu svæði. Og honum ætlum við að halda,“ segir Erlendur.
„Það féll alveg dómur um það í þjóðlendumálum. Það er alveg skýrt að ríkið hefur umráðaréttinn yfir landinu en við erum með nytjaréttinn. Og það ætlum við að passa,“ segir Erlendur í Skarði.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.
Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins: