Erlent

WHO í sam­skiptum við Breta vegna nýja af­brigðisins

Sylvía Hall skrifar
Afbrigðið er talið sjötíu prósent meira smitandi en önnur sem hafa fundist.
Afbrigðið er talið sjötíu prósent meira smitandi en önnur sem hafa fundist. Getty/Pietro Recchia

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) fylgist grannt með stöðu mála í Bretlandi vegna nýja afbrigðisins af kórónuveirunni sem hefur náð töluverðri dreifingu í Lundúnaborg og suðausturhluta Bretlands. Stofnunin er í nánum samskiptum við yfirvöld og verið er að rannsaka afbrigðið.

Afbrigðið er talið vera sjötíu prósent meira smitandi en önnur afbrigði. Enn sem komið bendir ekkert til þess að það valdi alvarlegri sjúkdóm eða sé banvænna og engar vísbendingar um að þau bóluefni sem nú þegar eru komin fram virki ekki á það, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Áætlað var að boða tilslakanir yfir hátíðirnar, en þeim áformum hefur nú verið breytt. Hertar aðgerðir tóku gildi á miðnætti og eru aðgerðirnar á þeim svæðum þar sem afbrigðið er að finna þær ströngustu frá upphafi faraldursins.

Aðgerðirnar hafa áhrif á 21 milljón íbúa Bretlands.

Íbúar á þeim svæðum þar sem aðgerðir eru hvað harðastar og flokkast sem fjórða stigs aðgerðir mega því aðeins ferðast að heiman vegna vinnu eða skóla. Óheimilt er að fá fólk frá öðrum heimilum í heimsókn og öllum ónauðsynlegum verslunum er gert að loka. Líkamsræktarstöðvar verða lokaðar og einyrkjastarfsemi ekki leyfileg.

Fólki er einungis heimilt að hitta eina manneskju utandyra í einu en trúarsamkomur eru þó leyfilegar.

Þeir sem ekki eru búsettir á svokölluðum fjórða stigs svæðum er ráðið frá ferðalögum þangað. Engar undanþágur verða gerðar á reglunum á ofangreindum svæðum og aðeins á jóladag á öðrum svæðum landsins.


Tengdar fréttir

Nýtt afbrigði SARS-CoV-2 greinist á Bretlandseyjum

Heilbrigðisráðherra Breta, Matt Hancock, sagði frá því í gær að nýtt afbrigði SARS-CoV-2 hefði fundist í landinu. Fleiri en þúsund tilvik hafa greinst, flest í suðurhluta Bretlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×