Fótbolti

Lokaumferðin í Noregi: Viðar Örn og Matthías felldu Start, markalaust í Íslendingaslagnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viðar Örn var á skotskónum í kvöld.
Viðar Örn var á skotskónum í kvöld. Vålerenga

Alls fóru fimm leikir fram í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Viðar Örn Kjartansson skoraði er Vålerenga felldi Start og tryggði sér 3. sæti deildarinnar. Þá gerðu Sandefjord og Rosenborg markalaust jafntefli.

Viðar Örn kom Vålerenga á bragðið eftir aðeins fimm mínútna leik gegn Start sem átti aldrei möguleika í kvöld. Staðan var orðin 3-0 eftir hálftíma leik og þannig var hún enn er Matthías Vilhjálmsson leysti Viðar Örn af hólmi í því sem var síðasti leikur Matthíasar fyrir félagið.

Vålerenga bætti við fjórða markinu undir lok leiks og vann sannfærandi 4-0 sigur. Tryggði það liðinu þrðja sæti deildarinnar. Jóhannes Harðarson er þjálfari Start en Guðmundur Andri Tryggvason var ekki í leikmannahópnum.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn í miðverði Rosenborg sem gerði markalaust jafntefli á útivelli gegn Sandefjord. Viðar Ari Jónsson spilaði síðasta hálftímann í liði heimamanna. Rosenborg endaði í fjórða sæti og Sandefjord því ellefta.

Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn í miðverði Brann sem vann Odds BK 2-1 á heimavelli. Brann endaði í tíunda sæti deildarinnar.

Davíð Kristján Ólafsson lék fyrri hálfleik í 3-0 tapi Álasund gegn Mjøndalen en staðan var 3-0 í hálfleik. Álasund var langneðsta lið deildarinnar.

Að lokum voru Valdimar Þór Ingimundarson og Ari Leifsson í byrjunarliði Strømsgodset sem tapaði 0-4 á heimavelli gegn Stabæk. Íslendingaliðið var öruggt fyrir lokaumferðina eftir að hafa verið í fallbaráttu nær allt tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×