Lögregla hefur enn ekki komist inn á skriðusvæðið og fer leit því fram með þyrlum, drónum og hitamyndavélum. Leit stóð yfir í alla nótt en ekkert fékkst upp úr krafsinu, að því er fram kemur í norskum fjölmiðlum í morgun. Áfram verður leitað í dag.
„Við erum enn vongóð um að finna fólk og bjarga lífum,“ segir Dag André Sylju, lögreglumaður sem stýrir aðgerðum í Ask í samtali við NRK í morgun.
„Stærsta áskorunin er að við getum ekki farið inn á svæðið. Við myndum vilja það en getum það ekki. Það er einfaldlega of hættulegt.“
Líkt og áður segir voru leitarhundur, þjálfari hans og björgunarsveitarmaður látnir síga niður úr þyrlu á hamfarasvæðinu í leit að fólki. Þeir voru einnig látnir meta aðstæður á svæðinu og hvort óhætt væri að senda leitarhópa af stað.
Fleiri hús hrundu til grunna seint í gærkvöldi en að minnsta kosti sautján hús eru talin hafa orðið skriðunum að bráð. Í gærkvöldi lækkaði tala þeirra sem er saknað niður í tíu, eftir að nokkrir tilkynntu að þeir hefðu verið í burtu þegar hamfarirnar urðu.
Þúsund íbúum hefur nú verið gert að yfirgefa heimili sín. Sérfræðingar telja að hætta sé á fleiri skriðum en þó ekki jafnstórri og féll í fyrrinótt.