City í úrslit deildarbikarsins fjórða árið í röð

Anton Ingi Leifsson skrifar
City menn fagna öðru marki Fernandinho en Marcus Rashford svekkir sig.
City menn fagna öðru marki Fernandinho en Marcus Rashford svekkir sig. Peter Powell/Getty

Manchester City mun leika til úrslita gegn Tottenham í enska deildarbikarnum eftir að City vann 2-0 sigur á grönnum sínum í Manchester United í síðari undanúrslitaleiknum sem fór fram á Old Trafford í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var ansi fjörugur. Sótt var á báða bóga og komu City menn boltanum tvívegis í netið í fyrri hálfleik. Ilkay Gundogan í fyrra skiptið og Phil Foden í það síðara en í bæði skiptin voru mörkin dæmd af í VARsjánni vegna rangstöðu.

Manchester United átti einnig sín tækifæri en þeir ógnuðu með hraða sínum og krafti fyrir aftan vörn City en gestirnir frá Etihad pressuðu heimamenn vel. Staðan var þó markalaus í fyrri hálfleik án þess að City ætti skot á markið, því mörkin sem voru dæmd af telja ekki sem skot.

Síðari hálfleikurinn var einungis fimm mínútna gamall er fyrsta marki kom. Phil Foden tók þá aukaspyrnu og eftir smá darraðadans fór boltinn af John Stones og í netið. Þetta var fyrsta mark Stones frá HM 2018 og fyrsta félagamarkið hans síðan 2017.

Harry Maguire átti fínan skalla fyrir Manchester United og Bruno Fernandes reyndi skot en City tvöfaldaði forystuna sjö mínútum fyrir leikslok. Fernandinho skoraði þá með þrumuskoti fyrir utan teig og Dean Henderson var varnarlaus í markinu. Lokatölur 2-0.

City hefur leikið til úrslita síðustu þrjú ár í enska deildarbikarnum og unnið keppnina í tvígang. Þeir unnu Arsenal 2018, töpuðu gegn Chelsea 2019 og höfðu svo betur gegn Villa 2020. Þeir mæta Jose Mourinho og lærisveinum hans í Tottenham í úrslitaleiknum í ár sem fer fram 25. apríl.

Þetta er jafn framt fjórða tap Man. United í undanúrslitum í röð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira