Erlent

Óttast að heilbrigðisstarfsfólk þurfi að velja hverjir fái læknisaðstoð

Sylvía Hall skrifar
Mikið álag hefur verið á sjúkraflutningafólki í ljósi þess hversu mikið smitum fjölgar.
Mikið álag hefur verið á sjúkraflutningafólki í ljósi þess hversu mikið smitum fjölgar. Dave Rushen/Getty

Rúmlega þrjátíu þúsund liggja nú á sjúkrahúsi í Bretlandi með Covid-19 en fjöldinn hefur aldrei verið meiri. Þegar mest var í fyrstu bylgju faraldursins lágu tæplega 22 þúsund inni.

Yfirvöld hafa miklar áhyggjur af stöðu mála, en undanfarna daga hefur metfjöldi greinst með kórónuveirusmit á hverjum degi. Fjöldi nýrra smita fór í fyrsta sinn yfir sextíu þúsund í fyrradag og voru þau enn fleiri í gær, eða 62 þúsund.

Matt Hancock heilbrigðisráðherra sagði stöðuna alvarlega og því hefði verið nauðsynlegt að herða aðgerðir í landinu. Ef staðan myndi versna gæti heilbrigðisstarfsfólk þurft að ákveða hverjir fengju heilbrigðisaðstoð og hverjir ekki, þar sem heilbrigðiskerfið myndi ekki geta sinnt öllum.

„Ef við grípum ekki til aðgerða núna, þá mun heilbrigðiskerfið ekki standa undir álaginu,“ er haft eftir Hancock á vef breska ríkisútvarpsins.

Hann sagði fyrirséð að fyrstu vikur vetrarins yrðu erfiðar en landsmenn þekktu leiðina út. Þá hafði dreifingu bóluefnis verið flýtt og aðgerðir hertar á landsvísu.


Tengdar fréttir

Útgöngubann á Englandi

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í kvöld um útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins í Englandi. Í ávarpi sem hann flutti í kvöld sagði hann útbreiðslu nýs afbrigðis veirunnar, sem herjað hefur á Bretlandseyjar og er talið 50 til 70 prósent meira smitandi en flest önnur afbrigði, vera áhyggjuefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×