Trump var ákærður í fulltrúadeildinni á dögunum fyrir aðkomu sína að árásinni á þinghúsið í höfuðborginni Washington þann 6. janúar þar sem fimm létu lífið.
Næsta skref er að taka ákæruna fyrir í öldungadeildinni. Þar gæti hann verið sakfelldur en einnig er inni í myndinni að svipta hann leyfi til að bjóða sig aftur fram til opinbers embættis.
BBC segir frá því að Demókratar í fulltrúadeildinni séu nú sagðir reiðubúnir að formlega afhenda öldungadeildinni ákæruna.
Trump lét af embætti Bandaríkjaforseta á miðvikudaginn. Hann sleppti að mæta á innsetningarathöfn Joes Biden og flaug þess í stað til Flórída.
Trump er fyrsti forseti Bandaríkjanna sem er ákærður til embættismissis í tvígang. Komandi réttarhöld í öldungadeildinni verða sömuleiðis þau einu sinnar tegundar í sögunni, sem fram fara eftir að forseti Bandaríkjanna hefur látið af embætti.