Ragnar á að baki 55 ára starfsferil sem jarðskjálftafræðingur, býr í vesturbæ Reykjavíkur, en í fréttum Stöðvar 2 kvaðst hann aldrei hafa upplifað aðra eins hrinu.
„Nei, ekki á Reykjanesskaganum. Þetta er það mesta sem hefur verið á minni starfsævi. Reyndar er henni lokið, er það ekki?,“ segir Ragnar og hlær.
„Þetta er svona rosalega mikið af skjálftum sem hnykkja við manni. Og manni finnst að eitthvað mikið gæti hafa gerst.“

Mestu hættuna segir hann stafa af hugsanlegum stórum skjálfta milli Bláfjalla og Kleifarvatns. Hann vísar til þess að jarðskjálfti árið 1929 hafi verið 6,3 stig. Í öllu áhættumati geri menn ráð fyrir að þar geti orðið skjálfti upp á allt að 6,5 stig. Það sé álíka og í Suðurlandsskjálftunum árið 2000. Það sé þó engin leið að segja til um hvenær.
„Því miður er ekkert sem við getum sagt um það. Við höfum ekki nægilegar upplýsingar um það að spá því hvenær það muni bresta. Það væri bara spá út í loftið.“
Ragnar segir athyglisvert að skjálftarnir við Keili raði sér á sprungu sem liggi í norðaustur-suðvestur, sem er stefna á gossprungu. Á sjö til níu kílómetra dýpi sé kvika að þrýsta sér aðeins upp. Hún liðki fyrir því að það verði jarðskjálftar.

-En er þá kvika á leiðinni upp á yfirborð?
„Hún er ekki á leiðinni upp á yfirborð. Hún er ansi langt frá yfirborði. Ef þetta á að valda einhverju gosi þá verður kvikan sjálf að vera komin upp á svona fjóra kílómetra. Þá fer maður að verða virkilega hræddur um að það komi gos. En hún heldur sig að mestu leyti, eins og ég hef horft á þetta, niður á svona sjö kílómetra dýpi.“
Ragnar segir að óneitanlega séum við að nálgast nýtt gostímabil á Reykjanesskaga. En er hrinan þá vísbending um að við séum að sigla inn í það?
„Mér finnst það, jú. En hún er kannski ekki byrjun á því. Það kannski verður ekkert gos úr þessu. Mér finnst ekkert ennþá líklegt að það verði gos úr þessu. En mér finnst þetta einn skýrasti votturinn um það á síðari árum að við séum raunverulega að sigla inn í það kerfi, goskerfið,“ segir jarðskjálftafræðingurinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá ítarlegra viðtal við Ragnar um hræringarnar á Reykjanesskaga: