Körfubolti

NBA dagsins: Vígið stendur í Utah, Clippers hægðu á Suns og meistararnir síga niður

Sindri Sverrisson skrifar
Donovan Mitchell sækir að körfu Portland.
Donovan Mitchell sækir að körfu Portland. AP/Isaac Hale

Donovan Mitchell segir Utah Jazz hafa lagt allt í sölurnar í nótt eftir tapið erfiða gegn Phoenix Suns kvöldið áður. Það bitnaði á Portland Trail Blazers. Utah vann 122-103 og þar með sinn 23. heimasigur í röð.

Í NBA dagsins má sjá svipmyndir úr sigri Utah, sem og úr 113-103 sigri LA Clippers á Phoenix Suns, og 110-104 sigri Miami Heat á LA Lakers, auk bestu tilþrifa næturinnar.

Klippa: NBA dagsins 9. apríl

Mitchell skoraði 37 stig gegn Portland, eftir að hafa skorað 41 gegn Phoenix kvöldið áður. Mitchell sagði sigurinn mikilvægan, gegn þriðja liðinu sem sé á leið í úrslitakeppnina, eftir töp gegn Phoenix og Dallas Mavericks.

Paul George og Kawhi Leonard skoruðu glæsilegar körfur gegn Phoenix Suns, eins og sjá má hér að ofan. George endaði með 33 stig og Leonard 27. Clippers eru í 3. sæti vesturdeildarinnar, á eftir Utah og Phoenix, en Denver Nuggets eru skammt undan.

Meistarar Los Angeles Lakers, enn án LeBron James og Anthony Davis, dragast sífellt meira aftur úr en þeir eru með 32 sigra og 20 töp, í 5. sæti. Jimmy Butler skoraði 28 stig fyrir Miami Heat í 110-104 sigri gegn Lakers, og Victor Oladipo skoraði 18 stig áður en hann haltraði meiddur af velli í fjórða leikhluta.

Miami er í 6. sæti austurdeildarinnar, einum sigurleik ofar en Boston Celtics.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×