Vígamenn Palestínumanna hafa haldið áfram að skjóta eldflaugum á Ísrael frá Gasa og Ísraelsher hefur haldið áfram linnulausum sprengjuárásum á svæðið.
BBC segir frá því að fjörutíu hið minnsta hafi fallið í árásunum síðustu daga og er um að ræða mestu átök í áraraðir.
Á annað þúsund eldflauga
Talsmenn Ísraelshers segja herinn nú beina sjónum sínum að palestínskum vígamönnum á Gasa vegna eldflaugaárása þeirra á Jerúsalem og fleiri staði síðustu daga. Á annað þúsund eldflauga hefur verið skotið á Ísrael síðan á mánudagskvöld þegar aukin harka færðist í átökin.
Palestínskir vígamenn segja að þeir hafi skotið á borgina Tel Aviv eftir að tvær íbúablokkir á Gasa, þar af ein þrettán hæða, eyðilögðust í loftárás Ísraelshers í gær.
Greint var frá því í gær að íbúar í al-Jawhara turninum hafi verið varaðir við að yfirgefa heimili sín áður en loftárásin var gerð, en talsmenn palestrínskra yfirvalda segja að einhverjir hafi þrátt fyrir það látist í árásinni.
Palestínumenn segjast hafa svarað árásunum með því að skjóta tvö hundruð eldflaugum á Tel Avív og Beersheba.
Mikil spenna á svæðinu síðustu vikur
Átökin nú blossa upp eftir að vaxandi spennu síðustu vikna. Til átaka kom milli ísraelskra lögreglumanna og palesstínskra mótmælenda á helgum stað bæði múslima og gyðinga í Jerúsalem um helgina.
Stop the fire immediately. We re escalating towards a full scale war. Leaders on all sides have to take the responsibility of deescalation. The cost of war in Gaza is devastating & is being paid by ordinary people. UN is working w/ all sides to restore calm. Stop the violence now
— Tor Wennesland (@TWennesland) May 11, 2021
Tor Wennesland, friðarerindreki Sameinuðu þjóðanna í Miðausturlöndum, hefur hvatt deiluaðila til að leggja niður vopn og að sem standi stefni í allsherjarstríð milli Ísraela og Palestínumanna.
Að minnsta kosti 35 Palestínumenn, þar af tíu börn, og fimm Ísraelsmenn hafa látist í átökum síðustu daga, að því er breska ríkisútvarpið hefur eftir fulltrúum heilbrigðisyfirvalda á svæðinu.