Árásir Ísraela um helgina voru sérstaklega harðar og voru loftárásir gærdagsins þær skæðustu til þessa, að sögn leiðtoga Palestínumanna á Gasaströndinni. Fullyrtu þeir að fjörutíu og tvö, þar á meðal sextán konur og börn, hefðu fallið í árásum gærdagsins. Frá upphafi árásanna hafi nú tæplega tvö hundruð manns fallið og á annað þúsund manna særst.
Ísraelsher heldur því fram að Palestínumenn hafi skotið sextíu eldflaugum að ísraelsku borgunum Beersheba og Ashkelon í nótt. Sjúkraliðar þar segja að nokkrir hafi særst, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Herinn svaraði með því að sprengja upp fimmtán kílómetra af jarðgöngum sem Hamasliðar nota og heimili níu leiðtoga samtakanna.
Reuters-fréttastofan hefur eftir Ísraelsher að Abu Harbeed, leiðtogi Íslamsk jíhads á norðanverðri Gasaströndinni, hafi fallið í loftárásunum. Hann hafi borið ábyrgð á eldflaugaárásum á ísraelska borgara. Sjúkraliðar á Gasa segir að í það minnsta þrír Palestínumenn til viðbótar hafi látið lífið í bíl í Gasaborg og annar í bænum Jabalya.
AP-fréttastofan segir að ekki liggi fyrir hvort að fleiri hafi fallið eða særst á árásum Ísraela í nótt. Þriggja hæða blokk í Gasaborg hafi orðið fyrir miklum skemmdum í loftárás en íbúar þar sögðust hafa fengið tíu mínútna fyrirvara og allir hafi náð að koma sér út. Borgarstjórinn í Gasa segir að miklar skemmdir hafi orðið á vegum og öðrum innviðum í loftárásunum. Ástandið í borginni fari snarversnandi.
Átök á milli vopnaðra sveita Palestínumanna og Ísraelshers hófust á mánudag eftir margra daga spennu vegna fyrirhugaðrar brottvísunar palestínskra fjölskyldna úr húsum þeirra í Austur-Jerúsalem. Hamassamtökum hófu þá að skjóta eldflaugum á ísraelskar borgir til að hefna fyrir meðferð ísraelskra öryggisveita á palestínskum mótmælendum.
Þeim árásum svaraði Ísraelsher með loftárásum á Gasaströndina sem ekki sér enn fyrir endann á þrátt fyrir að alþjóðasamfélagið hafi hvatt til vopnahlés. Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvatti bæði Ísraela og Palestínumenn til þess að vernda óbreytta borgara í morgun.
„Palestínumenn og Ísraelar hafa rétt til að búa við öryggi eins og fólk alls staðar,“ sagði Blinken í opinberri heimsókn í Danmörku.