Vélin lagði af stað frá Keflavíkurflugvelli klukkan hálf tólf við mikinn fögnuð viðstaddra. Þeir Birgir Jónsson, forstjóri Play og Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia klipptu á borða í tilefni dagsins.
Birgir og Guðmundur ávörpuðu farþega og fjölmiðla. Guðmundur Daði sagði daginn í dag marka stóran dag fyrir íslenska ferðaþjónustu. Það væri ævintýri líkast hvernig Íslendingum hefði tekist að búa til jafn blómlegan atvinnuveg í flugi og ferðaþjónustu eins og raun ber vitni. „Þar hafa flugfélögin spilað stærsta hlutverkið og nú er komið að Play,“ sagði hann.
„Dagurinn verður varla stærri og gleðilegri“
Þá markar dagurinn sérstök tímamót í sögu flugfélagsins, því ásamt jómfrúarfluginu hófst hlutafjárútboð félagsins klukkan tíu í morgun. „Dagurinn verður nú varla stærri og gleðilegri í sögu fyrirtækisins,“ sagði Birgir með bros á vör.

Flugfélagið samanstendur af rúmlega hundrað áhafnarmeðlimum og sextíu til sjötíu starfsmönnum á skrifstofu. Langflestir áhafnarmeðlimir eru fyrrum starfsmenn WOW air, þar sem þeir búa nú þegar yfir þekkingu á þeirri tegund flugvéla sem Play notast við.
Play notast við Airbus 320 „fjölskylduna“, eins og Birgir kýs að kalla það, en það eru Airbus 319, 320 og 321. „Við ætlum að einbeita okkur að því sem við vitum að virkar og vera með eina tegund af vélum. Það er lykilatriði í þessu.“

Framtíðin björt
Markmið flugfélagsins er að vera komin með fimmtán flugvélar í sinn flota árið 2025. „Við gerum það í svona yfirveguðum og öguðum skrefum. Framtíðin er svona nokkuð fyrirsjáanleg og björt,“ segir forstjórinn.
Félagið hyggst þó ekki stefna á löng flug og lítur á fall WOW air sem lærdóm.
„WOW var auðvitað frábært fyrirtæki og kannski mögulega villtist það aðeins af leið. Við ætlum að reyna að gera rétta hluti og forðast þá röngu. Við ætlum ekki að fara í þessi löngu flug. Við ætlum ekki til Indlands og ekki með breiðþotur til Los Angeles eða neitt slíkt,“ segir Birgir.