Körfubolti

Hættur að leiðrétta það þegar honum er óskað til hamingju með NBA titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brook Lopez faðmar hér Larry O'Brien bikarinn eftir sigur Milwaukee Bucks. Það eru samt margir að óska tvíburabróður hans til hamingju með titilinn.
Brook Lopez faðmar hér Larry O'Brien bikarinn eftir sigur Milwaukee Bucks. Það eru samt margir að óska tvíburabróður hans til hamingju með titilinn. Getty/Patrick McDermott

Brook Lopez varð NBA-meistari með Milwaukee Bucks liðinu í sumar en ekki tvíburabróðir hans Robin Lopez.

Robin Lopez segir samt fólk sífellt vera að óska honum til hamingju með titilinn. Robin var leikmaður Washington Wizards á síðustu leiktíð og er nýbúinn að semja við Orlando Magic.

Robin lék reyndar við hlið bróður síns hjá Milwaukee Bucks en það var 2019-20 tímabilið og eftir það samdi Robin við Wizards.

Robin Lopez þykir mjög skemmtilegur og vingjarnlegur náungi sem er alltaf vinsæll hvar sem hann kemur.

Hann grínaðist með það að hann væri of kurteis til að leiðrétta fólk þegar það kemur og óskar honum til hamingju með NBA-titilinn.

„Ég vil ekki særa neinn og svo ég hef bara sagt takk fyrir. Þetta komið svo langt að mér finnst eiginlega að ég hafi unnið titilinn. Ég hef í framhaldinu hugsað með sjálfum mér: Er þetta þá allt saman,“ sagði Robin léttur að vanda.

Robin Lopez var með 9,0 stig og 3,8 fráköst að meðaltali á 19,1 mínútu í leik með Washington Wizards á síðasta keppnistímabili í NBA.

Þeir bræður eru mjög líkir en þær ættu að þekkjast á þriggja stiga skotunum. Robin skoraði aðeins fimm þrista allt tímabili og nýtt bara 28 prósent af langskotum sínum.

Brook Lopez setti aftur á móti niður 95 þrista í deildarkeppninni og hitti úr 34 prósent skota sinna fyrir utan. Brook var með 12,3 stig og 5,0 fráköst í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×