Körfubolti

Eigandi Phoenix Suns sakaður um kynþáttafordóma

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Robert Sarver fagnar því að komast í lokaúrslitin í vor
Robert Sarver fagnar því að komast í lokaúrslitin í vor EPA-EFE/ETIENNE LAURENT

NBA liðið Phoenix Suns stendur í ströngu þessa dagana. Mikið í gangi á vellinum en ekki virðist dramatíkin ætla að vera minni utanvallar. Liðið sendi frá sér yfirlýsingu í gær sem viðbragð við því að miðillinn ESPN ætlar að birta fréttaskýringu um eiganda liðsins, Robert Sarver.

Í fréttaskýringunni, sem hefur ekki enn verið birt, er sagt frá kynþáttafordómum, kvenfyrirlitningu og öðru áreiti Sarver. Það var Jordan Schultz, þáttarstjórnandi og NBA álitsgjafi sem sagði frá því að fréttaskýringin væri í bígerð. Talsmaður ESPN, Josh Krulewitz, sagði í gær að ESPN myndu ekki tala um fréttir sem hefðu ekki verið birtar.

Það stöðvaði Phoenix ekki frá því að senda frá sér yfirlýsingu sem gaf sögunni enn frekari byr undir báða vængi. Framkvæmdastjóri Phoenix, Jason Rowley, sagði í yfirlýsingunni:

„Þessi frétt á ekki við nein rök að styðjast og er ósannur rógburður. Fréttin segir alls ekki frá þeim Robert Sarver sem ég hef þekkt og starfað með undanfarin 15 ár“.

Sarver sjálfur sagði í viðtali að hann þoli ekki þegar gert er lítið úr konum, minnihlutahópum eða þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu. Þá hafði hann þetta að segja:

„Þó ég geti í raun illa svarað svo óljósum og óbirtum ásökunum þá get ég sagt að það sem mér er gert að sök gengur algerlega gegn mínum karakter og mínu eðli“.

Árið 2015 komu fram í dagsljósið upptökur af þáverandi eiganda Los Angeles Clippers, Donald Sterling, þar sem hann fer miður fallegum orðum um svarta og aðra minnihlutahópa í Bandaríkjunum. Í kjölfarið þvingaði NBA deildin Sterling til þess að selja Clippers. Það sama gæti gerst núna ef sannanirnar eru miklar.

Robert Sarver keypti Phoenix Suns á 401 milljón dollara fyrir meira en áratug. Liðið er metið á tæplega tvo milljarða dollara í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×