Körfubolti

NBA: Doncic með flautukörfu á móti Boston

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Luka Doncic
Luka Doncic EPA-EFE/ETIENNE LAURENT

Slóveninn Luka Doncic gerði sér lítið fyrir og skoraði flautukörfu sem tryggði Dallas Mavericks sigurinn á móti Boston Celtics í nótt. Doncic skoraði 33 stig, tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Jayson Tatum skoraði 32 stig fyrir Boston, sem lenti langt undir í leiknum en kom til baka.

Alls fóru fram sex leikir í NBA deildinni í nótt.

Denver Nuggets fékk Houston Rockets í heimsókn til Colorado. Nuggets unnu erfiðan 95-94 sigur gegn Houston liði, sem er eitt það allra yngsta í deildinni. Nikola Jokic skoraði 28 stig og tók 14 fráköst fyrir Nuggets en Daniel Theis skoraði 18 stig fyrir Rockets.

Stórskemmtilegur leikur fór fram í Miami þar sem Utah Jazz var í heimsókn. Miami náði góðri forystu en Jazz komst alla leið til baka en náði þó aldrei að komast yfir. Lokatölur 118-115 Miami í vil. Jimmy Butler skoraði 27 stig fyrir Miami en Donovan Mitchell 37 fyrir Utah. Bæði liðin hafa farið vel af stað og hafa unnið 7 af 9 leikjum sínum.

Philadelphia hélt áfram sinni góðu byrjun með sigri á Chicago Bulls í Chicago, 105-114. Joel Embiid lék á alls oddi og var mikið í því að stríða áhorfendum. Embiid skoraði 30 stig og tók 15. fráköst. Furkan Korkmaz skoraði að auki 25 stig fyrir Philadelphia sem lætur Ben Simmons dramað ekki fara í sig. Zach Lavine skoraði 32 stig fyrir Chicago.

Phoenix Suns bar sigurorð af Atlanta Hawks í Phoenix. Leikurinn var jafn á öllum tölum en Suns reyndust sterkari á lokasprettinum og unnu sigur, 121-117. Devin Booker skoraði 38 stig fyrir Phoenix en Trae Young 31 stig fyrir Atlanta.

Portland Trail Blazers unnu þægilegan sigur á Los Angeles Lakers í Englaborginni. Lokatölur 90-105. Damian Lillard skoraði 25 stig fyrir Portland en Malik Monk skoraði 13 fyrir Lakers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×