Löfven hefur verið forsætisráðherra Svíþjóðar síðan í október 2014, en tilkynnti síðsumars að hann hygðist stíga til hliðar í haust, bæði sem forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmannaflokksins.
Ríkisstjórn hans féll í júní síðastliðnum eftir að vantrauststillaga á hendur honum var samþykkt á sænska þinginu. Það var í fyrsta sinn í sænskri sögu sem vantrausti er lýst á forsætisráðherra landsins. Löfven fékk þó aftur umboð til stjórnarmyndunar og tók aftur við embætti í júlí.
Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, var fyrir helgi kjörin formaður Jafnaðarmannaflokksins á landsþingi flokksins í Gautaborg.
Hún er talin líklegust til að taka við forsætisráðherraembættinu, fyrst sænskra kvenna, en í frétt sænska ríkisútvarpsins SVT segir þó að ekki sé allt ljóst með framhaldið. Samstarfsflokkar jafnaðarmanna í ríkisstjórn þurfi að samþykkja hana, en fyrst þarf að útkljá ákveðin deilumál, aðallega varðandi umhverfismál.
Þingkosningar fara fram í Svíþjóð haustið 2022.