Körfubolti

Bak­slag hjá Zion: Spilar ekki fyrr en á nýju ári

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Zion í einum af þeim fáum leikjum þar sem hann hefur verið heill heilsu.
Zion í einum af þeim fáum leikjum þar sem hann hefur verið heill heilsu. vísir/Getty

Það verður seint sagt að NBA-ferill Zion Williamson hafi verið dans á rósum til þessa. Frá því New Orleans Pelicans valdi Zion í nýliðavali deildarinnar árið 2019 hefur hann verið meira og minna meiddur. Hann mun ekki spila aftur fyrr en á næsta ári.

Zion var einn vinsælasti íþróttamaður Bandaríkjanna er hann var enn í háskóla og mikil spenna ríkti í kringum komu hans í NBA-deildina. Meiðsli í október 2019 þýddu að hann spilaði ekki sinn fyrsta leik í deildinni fyrr en í janúar árið eftir.

Alls spilaði hann aðeins 24 leiki það tímabilið. Á síðasta tímabili spilaði hann alls 61 leik en eftir að hafa orðið fyrir meiðslum á hægri fæti síðasta sumar fór hann í aðgerð og hefur því ekki enn spilað á yfirstandandi leiktíð.

Eftir að hafa farið í myndatöku nýverið varð ljóst að það er enn töluvert í að Zion snúi aftur á völlinn þar sem meiðslin eru ekki að gróa jafn hratt og búist var við. Pelicans verða því án miðherjans öfluga eitthvað fram á nýja árið.

Mögulega er Zion ekki æstur í að snúa aftur þar sem Pelicans hefur að engu að keppa. Liðið hefur aðeins unnið 8 af 29 leikjum sínum og vermir botnsæti Vesturdeildarinnar sem stendur. 

Einu lið NBA-deildarinnar með verri árangur eru Detroit Pistons og Orlandi Magic, þau leika bæði í Austurdeildinni.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×