Innlent

Stjúp­móðir sökuð um að hafa haft stjúp­börn sín í nauðungar­vinnu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Börnin krefja stjúpmóðurina um 29 milljónir í bætur.
Börnin krefja stjúpmóðurina um 29 milljónir í bætur. Vísir/Vilhelm

Kona hefur verið ákærð fyrir mannsal en hún er sökuð um að hafa haft fjögur stjúpbörn sín í þrælkunarvinnu. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness fyrr í þessum mánuði, eftir ákæru héraðssaksóknara.

Fréttastofa RÚV greinir fyrst frá en þar segir að stjúpmóðirin hafi verið gift föður barnanna fjögurra. Hún hafi flutt þau hingað til lands og neytt þau til að vinna í þrettán klukkustundir á dag, sex til sjö daga vikunnar. Konan er íslensk en hefur sterk tengsl við erlent land, segir í frétt RÚV.

Þá segir að stjúpmóðirin hafi vanrækt börnin, andlega og líkamlega, og sýnt af sér ruddaskap og yfirgang. Konan hafi öskrað á börnin bæði á heimili og á vinnustað þeirra og gert lítið úr þeim á sérstaklega sársaukafullan hátt, en hún útvegaði þeim vinnu á stað þar sem hún vann sjálf sem verkstjóri.

Í ákærunni segir að börnin hafi ekki mátt stunda tómstundir eða hitta vini sína og hún hafi neitað þeim að sækja framhaldsskóla, að skólaskyldu lokinni. Konan hafi þar að auki hótað að senda börnin úr landi.

Stjúpmóðirin er ákærð fyrir mansal og peningaþvætti. Hún er sökuð um að hafa tekið sextán milljónir af launum barnanna, skipt í erlendan gjaldeyri og flutt út úr landi. Börnin krefja konuna um 29 milljónir í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×