Innlent

Vill leyfa heil­brigðis­starfs­fólki að vinna lengur

Árni Sæberg skrifar
Willum Þór Þórsson er heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson er heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðuneytið hefur sett áform um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn í samráðsgátt. Breytingunni er ætlað að mæta mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu með því að heimila heilbrigðisstofnunum að ráða fólk eftir sjötíu ára aldur.

Núverandi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins krefjast þess að öllum opinberum starfsmönnum verði sagt upp störfum þegar þeir verða sjötíu ára gamlir. Engin undanþága er í lögunum en nú stendur til að setja undanþágu í lög um heilbrigðisstarfsmenn.

Í samráðsgáttinni segir að uppsagnir fólks sem nær sjötugu séu óháðar starfsgetu eða áhuga á að starfa áfram þrátt fyrir mikinn skort á heilbrigðisstarfsfólki, sem búast megi við að muni aukast enn frekar á næstu árum miðað við óbreyttar aðstæður.

Til þess að mæta þessum skorti stendur til að bæta undanþáguákvæði í lög um heilbrigðisstarfsmenn sem mun heimila heilbrigðisstofnunum ríkisins að ráða fólk aftur eftir sjötíu ára aldur allt til 75 ára aldurs. Eftir það þurfi að segja fólki upp varanlega. Þó mun alltaf þurfa að segja heilbrigðisstarfsmönnum upp störfum og ráða þá aftur, sé vilji beggja fyrir hendi.

Með því yrði aldurshámark heilbrigðisstarfsmanna ríkisins fært til samræmis við gildandi aldurshámark heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu.

Þá segir að stór hluti heilbrigðisstarfsfólks muni ná sjötíu ára aldri á næstunni, sér í lagi innan stærstu stéttanna, sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga. Í þeim stéttum sé þegar mikill skortur á fagfólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×