Innlent

Hópur fólks hafi komist til valda með of­forsi og ein­eltis­til­burðum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Þórarinn er afar svartsýnn á framtíð ASÍ.
Þórarinn er afar svartsýnn á framtíð ASÍ. skjáskot/Stöð 2

For­maður Öldunnar, stéttar­fé­lags innan Al­þýðu­sam­bandsins (ASÍ), segir fram­tíð verka­lýðs­hreyfingarinnar svarta eftir sviptingar innan hennar undan­farið. Hann segir hóp fólks hafi komist til valda með of­forsi og ein­eltis­til­burðum, sem fáir séu spenntir að vinna með.

Það dró til tíðinda þegar Drífa Snæ­dal til­kynnti af­sögn sína sem for­seti ASÍ í gær­morgun.

„Ég er náttúru­lega dapur og leiður yfir þessu og finnst skelfi­legt að það skuli vera komið svo að hún hrekist úr starfi vegna... eigum við ekki bara að kalla þetta ein­elti og of­beldi sem hún hefur orðið fyrir. Mér hefur fundist það vera þannig í hennar garð,“ segir Þórarinn Sverris­son, for­maður Stéttar­fé­lagsins Öldu.

Þar vísar hann til hóps sem hefur myndast innan verka­lýðs­hreyfingarinnar, sem Drífa sagði í gær að væri á­stæða af­sagnar sinnar.

Sól­veig Anna Jóns­dóttir, for­maður Eflingar, Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, og Vil­hjálmur Birgis­son, ný­kjörinn for­maður Starfs­greina­sam­bandsins (SGS), fara þar fremst en Drífa hefur nefnt fleiri foringja stéttar­fé­laga sem fylgja þeim.

Þórarinn hjá Öldu tapaði ein­mitt fyrir Vil­hjálmi í for­manns­kjöri SGS í vor. Hann lýsir sinni upp­lifun af vinnu­brögðum hinna:

„Þau hafa verið með ó­mál­efna­lega nálgun á þau mál­efni sem hafa verið í gangi. Við höfum oft og tíðum orðið fyrir því að menn hafa ekki fengið að ræða málin af því að það er ein­hver af­staða sem að þau taka og telja út úr kort að vera að hana eitt­hvað frekar. Ég er nú þannig gerður að ég vil alltaf hlusta og skoða það sem aðrir hafa fram að færa, líka þau ekkert síður en aðrir, og mér finnst alltaf betra að heyra and­stæð sjónar­mið heldur en ekki þegar maður er að velta fyrir sér hvaða af­stöðu er best að taka.

En þetta hefur ekki gengið því miður og ég verð að segja að ég skil af­stöðu Drífu um að segja af sér. Það er engum bjóðandi að vinna undir þessu.“

En hvernig horfir Þórarinn á fram­haldið innan ASÍ?

„Mér finnst það dökkt. Mér finnst það bara þannig og ég tel að þetta muni veikja hreyfinguna sem heild alveg gríðar­lega, hvernig fólk er að fara fram. Það er þessi valda­taka sem þarna hefur orðið, kannski ekki með beinum hætti en með þessum ó­látum og linnu­lausu gagn­rýni á eitt­hvað sem þarf kannski ekki að gagn­rýna. Og gera menn að ó­vinum sínum og ó­vinum launa­fólks… að tala fyrir því að við sem höfum vilja ræða hlutina séum á móti launa­fólki, þetta er auð­vitað alveg stór­skrýtin nálgun og ég skil ekki hvernig fólk yfir höfuð nennir að hlusta á fólk sem að hefur svona í frammi,“ segir hann.

Útiloka ekki að semja sjálf í haust

Ó­víst er hvaða á­hrif þessar deilur munu hafa á komandi kjara­samnings­við­ræður en kjara­samningar verða lausir í nóvember næst­komandi.

Stéttar­fé­lag Vestur­lands sendi í apríl frá sér harð­orða á­lyktun eftir fund trúnaðar­ráðs fé­lagsins þar sem hóp­upp­sagnir Eflingar í vor voru for­dæmdar. Þar segir:

  • „Stéttar­fé­lag Vestur­lands vill ekki eiga í neinum sam­skiptum við þau verka­lýðs­fé­lög sem láta þetta hátta­lag Eflingar á­tölu­laust.“

Í sam­tali við frétta­stofu í dag sagði Sig­ný Jóhannesdóttir, for­maður Stéttar­fé­lags Vestur­lands, að hópurinn í kring um Sól­veigu hefði alls ekki for­dæmt hóp­upp­sagnirnar á nægi­lega af­gerandi hátt. Þar á meðal er SGS sem hefur iðu­lega farið sem samnings­um­boð undir­fé­laga sinna í kjara­við­ræðum. Sig­ný sagði það þó verða lík­legra með hverjum deginum að fé­lagið veitti SGS ekki sitt um­boð í þetta skiptið og gengi til samninga­borðsins með eigin samninga­nefnd.

Þórarinn úti­lokar ekki að Aldan fari sömu leið en segir að það verði fé­lagið að skoða betur á næstu vikum og taka á­kvörðun um það innan stjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×