Í tilkynningu sinni segir Sólveig að hún trúi því að með nýjum áherslum sé hægt að umbreyta Alþýðusambandinu en hún hafi áður haft slæma reynslu af starfi innan sambandsins.
Hún vilji með framboði sínu bregðast við hvatningu sem hún hafi fengið frá félögum Eflingar, til þess að verka- og láglaunafólk eigi sterka rödd innan verkalýðshreyfingarinnar. Hún segist jafnframt styðja framboð Ragnars Þórs Ingólfssonar, sem er núverandi formaður VR, til formanns ASÍ heilshugar.
„Ég hef þá trú að þingi ASÍ 10.-12. október næstkomandi geti skapast sögulegt tækifæri til að gera ASÍ að því afli sem það getur orðið og á að vera: breytingaafl fyrir réttlæti og mótstöðuafl gegn óréttlæti,“ segir í tilkynningunni.
Hún hvetur félagsfólk Alþýðusambandsins til þess að koma með henni og Ragnari í þetta verkefni. Andstæðingar þeirra séu margir og einbeittir en það sé skylda þeirra að taka slaginn.
Tilkynningu Sólveigar má sjá hér að neðan.