Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru drengirnir handsamaðir eftir að tilkynning barst um líkamsárás í miðbænum en þeir voru einnig vopnaðir hnífum sem þeir notuðu til að ógna fólki. Þá spörkuðu þeir í höfuð fórnarlamba eftir að hafa slegið þau í jörðina en alla vega einn var fluttur á bráðamóttöku með einhverja höfuðáverka.
Ekki er vitað til um áverka annarra sem drengirnir réðust á að svo stöddu að sögn lögreglu. Málið var afgreitt með aðkomu barnaverndar og drengirnir vistaðir á viðeigandi stofnun. Þeir eru ósakhæfir en lögregla mun þó ræða betur við þá í framhaldinu.
Lögregla lýsti því í sumar að þau hefðu áhyggjur af auknum vopnaburði í miðbænum og nokkur mál þar sem ungmenni hafa beitt ofbeldi hafa komið upp á undanförnum mánuðum. Einnig hefur verið rætt í fjölmiðlum um að ungmenni taki árásir upp á síma og deili á samfélagsmiðlum, en lögregla veit ekki til þess að það hafi verið tilfellið í gær.
Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður Velferðarnefndar Alþingis, segir mörgum brugðið vegna frétta af ofbeldi ungmenna, ekki síst þegar vopn eru notuð.
„Þetta hefur verið rætt meðal nefndarmanna, ekki tekið formlega fyrir, og fyrsta skrefið væri að afla upplýsinga um hvaða verkferlar fara í gang, hvaða verkferlar eru notaðir í viðbrögðum og forvörnum,“ segir Líneik.
Skoða þurfi hvað sé að breytast og hvort ofbeldi ungmenna sé í raun að aukast.
„Það er alveg tilefni til að kynna sér verklagið við úrvinnslu, aðstoð sem börn fá eftir svona atburði og stuðningi við fjölskyldur,“ segir Líneik.
Barnamálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu í lok ágúst að fara þyrfti í sérstakt átak til að kveða niður þá ofbeldisbylgju sem riðið hafi yfir meðal íslenskra barna og ungmenna. Til stæði að koma á fót stýrihópi sem myndi skoða ofbeldismál barna og meta hvað skyldi gera.