Erlent

Sunak til fundar við Karl í dag og verður form­lega for­sætis­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Rishi Sunak þykir klassískur íhaldsmaður sem dáir Margaret Thatcher og aðhyllist lága skatta.
Rishi Sunak þykir klassískur íhaldsmaður sem dáir Margaret Thatcher og aðhyllist lága skatta. EPA

Íhaldsmaðurinn Rishi Sunak mun ganga á fund Karls III Bretakonungs í dag og mun formlega taka við embætti forsætisráðherra Bretlands af Liz Truss.

Tilkynnt var í gær að Sunak hefði orðið fyrir valinu sem nýr leiðtogi Íhaldsmanna og yrði þar með forsætisráðherra landsins.

Klukkan átta mun Liz Truss stýra sínum síðasta ríkisstjórnarfundi. Klukkan 9:15 mun hún svo lesa yfirlýsingu fyrir utan Downingstræti 10 áður en hún heldur til fundar við Karl III konung.

Skömmu síðar mun Rishi Sunak mæta til konungsins þar sem hann verður formlega beðinn um að mynda nýja ríkisstjórn. Hann mun svo halda í Downingstræti 10.

Klukkan 10:35 er reiknað með að Sunak muni lesa yfirlýsingu fyrir utan Downingstræti 10, þá í hlutverki nýs forsætisráðherra landsins.

Liz Truss tilkynnti um afsögn sína sem leiðtogi Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðherra síðasta fimmtudag eftir einungis 45 daga í embætti. Hófst þá leiðtogakjör innan þingflokks Íhaldsmanna, en um miðjan dag í gær varð ljóst að Sunak yrði næsti leiðtogi eftir að Penny Mordaunt heltist úr lestinni. Hinn 42 ára Sunak var þá einn eftir í kjöri.


Tengdar fréttir

Erfiður vetur fram­undan: „Þetta var náttúru­­lega al­­gjör sneypu­­för“

Prófessor í stjórnmálafræði segir mjög erfiðan vetur framundan fyrir nýjan forsætisráðherra Bretlands. Kostnaður fylgi sneypuför Liz Truss og efnahagskrísa á Vesturlöndum muni hafa mikil áhrif á Bretland. Stjórnarandstaðan kallar eftir kosningum og segir Íhaldsmenn ekki geta teflt fram nýjum leiðtoga í hverjum mánuði.

Sunak nýtt andlit á gömul gildi

Kjör Rishis Sunak sem leiðtoga breska Íhaldsflokksins markar tímamót á ýmsan hátt. Hann verður yngsti forsætisráðherrann í meira en tvær aldir og sá fyrsti sem er ekki hvítur. Inn við beinið er Sunak þó klassískur íhaldsmaður sem dáir Margaret Thatcher og aðhyllist lága skatta.

Sunak verður næsti forsætisráðherra Breta

Rishi Sunak verður nýr leiðtogi Íhaldsmanna í Bretlandi og þar með forsætisráðherra. Hann stóð einn eftir í keppninni um sætið eftir að Penny Mordaunt steig til hliðar rétt fyrir klukkan eitt að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×