Stuðningsmenn PSV köstuðu hlutum til, sköpuðu óróa á meðal áhorfenda og unnu skemmdir á leikvangi Arsenal, í 1-0 tapinu gegn Arsenal í Evrópudeildinni þar sem Granit Xhaka skoraði sigurmarkið á 70. mínútu.
UEFA ákvað að refsa fyrir þetta með 40.000 evra sekt, sem jafngildir 5,7 milljónum króna, auk þess að banna PSV að selja miða á næsta útileik sinn í Evrópudeildinni. Þá hefur PSV þrjátíu daga til að borga Arsenal skaðabætur vegna þeirra skemmda sem unnar voru.
Næsti útileikur PSV er gegn Bodö/Glimt, liði Alfons Sampsted, í Noregi í næstu viku.
Áður en að þeim leik kemur spilar PSV hins vegar á heimavelli sínum gegn Arsenal síðdegis í dag, á meðan að Bodö/Glimt sækir Zürich heim. Ef að Bodö fær ekki færri stig en PSV í dag verður leikur liðanna í Noregi í næstu viku úrslitaleikur um að fylgja Arsenal upp úr riðlinum.