Lögregla telur að rekja megi hnífstunguárás á skemmtistaðnum Bankastræti club á fimmtudagskvöld til erja tveggja hópa. Á þriðja tug grímuklæddra manna réðst inn á staðinn, leitaði uppi tvo menn og stakk þá ítrekað. Síðan þá hafa hótanir gengið á milli hópanna. Í sumum tilfellum hafi bensínsprengjum verið kastað í hús og rúður brotnar.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir að árásin í síðustu viku afhjúpi hversu djúpstætt vandamál skipulögð glæpastarfsemi sé orðin á Íslandi. Það komi ekki á óvart í ljósi stöðunnar í sumum nágrannalöndunum.
„Þetta er bara samfélag sem við viljum ekki sjá skjóta rótum hér,“ sagði Jón í þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Nú sé í undirbúningi mikið átak til að höggva að rótum skipulagðrar glæpastarfsemi sem felist í því að efla lögregluna og tryggja öryggi lögreglumanna.
„Ég vil kalla það stríð gegn skipulagðri brotastarfsemi,“ sagði Jón.
Frumvarp um forvirkar heimildir „sárasaklaust“
Liður í átakinu sagði hann að ráðast í skipulagsbreytingar hjá lögreglunni en einnig að samþykkja frumvarp um auknar heimildir lögreglu. Kallaði Jón það afbrotavarnarheimildir en gjarnan hefur verið rætt um forvirkar rannsóknarheimildir í þessu samhengi.
Slíkar heimildir hafa verið umdeildar á Alþingi til lengri tíma en Jón fullyrti að frumvarp sitt væri „sárasaklaust“. Engin grundvallarbreyting yrði með því og það væri mildara en sumir stjórnarandstöðuþingmenn hefðu gefið í skyn.
Heimildirnar ættu aðeins við um skipulagða brotastarfsemi og ógn við ríkið og gæfu lögreglu heimild til þess að fylgjast með fólki sem tengdist ákveðinni glæpastarfsemi án þess að það væri grunað um ákveðin brot.
Sakaði Jón stjórnarandstöðuþingmenn um að afmynda söguna og rugla fólk í ríminu með gagnrýni sinni á frumvarpið. Hann hefði þrátt fyrir það trú á að frumvarpið yrði samþykkt fyrir jól og að þingmenn áttuðu sig á ábyrgð sinni eftir árásina á fimmtudag.
„Það er ekki í boði að gera ekki neitt,“ sagði Jón.
Einnig væri nauðsynlegt að búa lögreglumönnum starfsskilyrði til að þeir gætu sinnt störfum sínum. Ákall væri eftir því að þeir fengju að nota rafbyssur. Eins og sakir standa þurfi lögreglan að berjast gegn hnífum með spreyi og kylfum.
„Það er það sem við búum lögreglunni okkar gegn vopnuðu fólki.“

Efast ekki um að aðgerðir verði umdeildar
Ef frumvarpið um forvirkar rannsóknarheimildir færi í gegnum þingið og auknar fjárveitingar til lögreglunnar fengjust sagðist Jón bjartsýnn á að landslagið hvað varðaði skipulagða brotastarfsemi yrði gjörbreytt á næsta ári. Það yrði þó ekki endilega átakalaust.
„Það má vel vera að við þurfum að stíga hér skref sem verða umdeild, ég efast ekkert um það. Bæði þessum leyfisveitingum, mögulega í nýjum varnarvopnum og slíku fyrir lögreglu. Það verður umdeilt en við verðum að gera það,“ sagði dómsmálaráðherra.