Í frétt norska miðilsins VG er haft eftir sveitarstjórnarmanni á svæðinu að 27 íbúar hafi verið fluttir burtu. Svo lengi sem hvessi ekki eða vindátt snúist ætti slökkvilið að geta hamið eldana.
Tíu hús til viðbótar hafa verið rýmd í Álasundi vegna gróðurelda. Nú rétt fyrir miðnætti að íslenskum tíma segir slökkviliðið þar að útlit sé fyrir að hægt verði að ná stjórn á útbreiðslu þeirra bráðlega. Tilkynnt var um eldana seint í kvöld.
Viðbragðsaðilar eru tilbúnir að rýma stærra svæði ef þörf krefur en eldarnir eru nú í um 70 metra fjarlægð frá næstu húsum.
Ekki er vitað hvernig eldarnir kviknuðu en svo miklir gróðureldar eru ekki algengir svo seint á árinu. Snjór og mikill vindur á svæðinu hafa gert störf viðbragðsaðila erfiðari.