Körfubolti

Jokic í sögubækurnar með Chamberlain með einstakri þrennu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Jokic fór hamförum gegn Charlotte Hornets.
Nikola Jokic fór hamförum gegn Charlotte Hornets. getty/Justin Tafoya

Nikola Jokic, leikmaður Denver Nuggets, afrekaði í nótt eitthvað sem aðeins Wilt Chamberlain hafði gert í 76 ára sögu NBA-deildarinnar í körfubolta.

Jokic skoraði fjörutíu stig, tók 27 fráköst og gaf tíu stoðsendingar þegar Denver sigraði Charlotte Hornets á heimavelli, 119-115.

Serbinn komst þar með í hóp með sjálfum Chamberlain en þeir eru þeir einu sem hafa boðið upp á viðlíka tölfræði í einum leik, það er skorað að minnsta kosti fjörutíu stig, tekið 27 fráköst og gefið tíu stoðsendingar. Chamberlain skoraði 53 stig, tók 32 fráköst og gaf fjórtán stoðsendingar í leik með Philadelphia 76ers í mars 1968.

Jokic hefur aldrei tekið fleiri fráköst í einum leik á ferlinum en í nótt. Þetta var tíunda þrefalda tvennan hans á tímabilinu og sú 81. á ferlinum. Aðeins fimm leikmenn hafa náð fleiri þrennum í sögu NBA: Russell Westbrook, Oscar Robertson, Magic Johnson, Jason Kidd og LeBron James.

Á þessu tímabili er Jokic aðeins einni stoðsendingu frá því að vera með þrefalda tvennu að meðaltali í leik. Hann er með 24,6 stig, 10,3 fráköst og 9,0 stoðsendingar í leik. Þrátt fyrir að vera miðherji er hann þriðji stoðsendingahæsti leikmaður NBA í vetur.

Denver er í 3. sæti Vesturdeildarinnar með átján sigra og ellefu töp. Aðeins Memphis Grizlies hefur unnið fleiri leiki í Vesturdeildinni, eða nítján.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×