Mótmæli brutust út í Íran um miðjan september síðastliðinn þegar 22 ára kona að nafni Mahsa Jina Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar þar í landi. Hún var sökuð um að hafa ekki borið höfuðklút sinn á viðeigandi máta.
Mannréttindasamtökin „Iran Human Rights“ sem staðsett eru í Osló segja nú 476 mótmælendur hafa látið lífið í átökunum en í nóvember greindu Sameinuðu þjóðirnar frá því að að minnsta kosti 14 þúsund manns hafi verið handtekin vegna mótmælanna síðan þau hófust.
Tveir hafa verið teknir af lífi vegna mótmælana og eru enn fleiri sagðir eiga dauðadóm yfir höfði sér.
Khadem er ekki fyrsta íþróttakonan til þess að sleppa klútnum á erlendri grundu eftir að mótmælin hófust. Íranska klifurkonan Elnaz Rekabi keppti á Asíumótinu í klifri í Suður-Kóreu í október síðastliðnum án þess að bera höfuðklút. Eftir atvikið heyrðist lítið frá Rekabi þar til að afsökunarbeiðni frá henni birtist á Instagram.
Ekki voru allir sannfærðir um að tilkynningin hafi komið frá Rekabi af fúsum og frjálsum vilja en orðalag hennar hafi gefið til kynna að hún hafi verið þvinguð til þess að skrifa hana. Dæmi séu um það að aðrar íranskar íþróttakonur sem hafi keppt erlendis án þess að bera höfuðklút hafi verið neyddar til þess að senda frá sér svipaðar afsökunarbeiðnir.
Í nóvember síðastliðnum var svo greint frá því að íranska bogfimikonan Parmida Ghasemi hefði leyft höfuðklút að falla af höfði sér á meðan hún var viðstödd á verðlaunaafhendingu í Tehran. Samkvæmt umfjöllun CNN um myndband af atvikinu mátti heyra áhorfendur fagna þegar verknaðurinn átti sér stað.