Körfubolti

Kostar sitt ef þú ætlar að sjá LeBron slá stigametið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James heldur alltaf í þá hefð sína að kasta upp púðri fyrir leiki. Hér gerir hann það fyrir leik Los Angeles Lakers í nótt.
LeBron James heldur alltaf í þá hefð sína að kasta upp púðri fyrir leiki. Hér gerir hann það fyrir leik Los Angeles Lakers í nótt. AP/Frank Franklin II)

LeBron James nálgast óðum stigametið í NBA-deildinni og í nótt var hann með þrefalda tvennu í 129-123 sigri Los Angeles Lakers á New York Knicks.

Hinn 38 ára gamli James var með 28 stig, 10 fráköst og 11 stoðsendingar í leiknum en allar þessar stoðsendingar þýddu að hann fór upp fyrir Steve Nash og upp í fjórða sætið á listanum yfir þá sem hafa gefið flestar stoðsendingar í sögu NBA-deildarinnar.

Það er hins vegar stigametið sem flestir eru með augu á. Eftir þessa 28 stiga frammistöðu í nótt þá er James kominn með 38.299 stig og er því aðeins 89 stigum frá stigameti Kareem Abdul-Jabbar sem er 38.387 stig.

LeBron er með 30,2 stig að meðaltali í leik í vetur en skoraði 34,2 stig í leik í janúar. Hann hefur átt átt fimm fjörutíu stiga leiki síðan að hann hélt upp á 38 ára afmælið sitt í lok desember.

Það þýðir að hann gæti bara þurft þrjá leiki í viðbót til að slá metið. Næstu þrír leikir Lakers liðsins eru á útivelli á móti Indiana Pacers, á útivelli á móti New Orleans Pelicans og svo næsti heimaleikur sem er á móti Oklahoma City Thunder miðvikudaginn 8. febrúar næstkomandi eða eftir slétta viku.

Það eru margir með augastað á þessum leik á móti Thunder liðinu og miðaverð á leikinn er farið upp úr öllu veldi.

Miðar á leikinn eru núna komnir upp í 27 þúsund Bandaríkjadali eða 10,6 milljónir króna. Það gæti kostað sitt að verða vitni af þeirri sögulegu stund þegar James slær metið.

Það sem eykur líkurnar á því að metið falli þetta kvöld er sú staðreynd að það eru hvíldardagar á milli allra leikjanna og að þegar James mætir í leikinn á móti OKC þá er Lakers liðið ekki búið að spila leik tvö kvöld í röð sem þykir nú mikið í leikjaálagi NBA-deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×