Í nótt voru 72 tímar liðnir frá því skjálftinn öflugi reið yfir sem mældist 7,8 stig að stærð. Sá tímagluggi er sagður mikilvægur, því eftir að hann líður eru litlar líkur taldar á að fólk finnist á lífi í húsarústunum að því er Ilan Kelman prófessor í hamfarafræðum við University College segir í samtali við AFP.
Hann segir að 90 prósent þeirra sem finnist á lífi í rústum eftir skjálfta finnist innan 72 klukkustunda en bendir þó á að margir þættir hafi þar áhrif, eins og veður, eftirskjálftara og hversu skilvirkar björgunaraðgerðir eru á svæðinu sem um ræðir.
Eins og staðan er í Tyrklandi virðast þrír áðurnefndu þættirnir allir vega á móti von manna um að finna fleiri á lífi. Veður hefur verið afar slæmt, stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir seinagang í björgunaraðgerðum og fjölmargir eftirskjálftar riðu yfir, sumir hverjir litlu minni en sá stærsti.
Þá berast litlar fregnir af björgunarstarfi í Sýrlandi en yfirvöld þar segja að 298 þúsund hafi þurft að yfirgefa heimili sín. Þar virðist þó aðeins vera átt við þann hluta landsins sem er undir stjórn Bashar Al Assads forseta, en uppreisnarhéröðin í landinu eru mun nær upptökum skjálftans.