Ísraelsher sagðist hafa ráðist til atlögu í Nablus til þess að handtaka þrjá eftirlýsta vígamenn sem eru grunaðir um skotárásir á Vesturbakkanum, þar á meðal dráp á ísraelskum hermanni í fyrra. Yfirleitt gerir herinn rassíur af þessu tagi á næturnar til þess að draga úr hættu á mannfalli óbreyttra borgara. Í þessu tilfelli segist herinn hafa nýtt sér tækifærið eftir að leyniþjónustan komst á snoðir um hvar mennirnir héldu sig.
Hermenn umkringdu bygginguna og kröfðust þess að mennirnir gæfu sig fram. Þeir svöruðu með kúlnahríð. Talsmaður hersins segir að einn þeirra hafi verið skotinn til bana þegar hann reyndi að flýja. Eldflaugum hafi síðan verið skotið á bygginguna sem hrundi til grunna. Hinir mennirnir tveir létust þá.
Vopnaðir menn eru sagðir hafa skotið á hermennina sem svöruðu fyrir sig. AP-fréttastofan segir að upptökur úr öryggismyndavél sýni tvo unga og óvopnaða menn sem virðist hafa verið skotnir til bana. Talsmaður Ísraelshers segir myndbandið til skoðunar.
Vaxandi spenna
Bardaginn er sagður einn sá blóðugasti í skærum sem hafa staðið yfir á Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem í tæpt ár. Karlmaður á áttræðisaldri er á meðal þeirra látnu og 102 særðir, að sögn palestínskra yfirvalda.
Rassía Ísraelshers þar sem tíu vígamenn voru felldir í síðasta mánuði varð tilefni að mannskæðri árás Palestínumans fyrir utan bænahús gyðinga í Jerúsalem. Hamas-samtökin segja að þolinmæði þeirra sé á þrotum.
Spennan á milli Ísraela og Palestínumanna hefur aukist enn frekar vegna fyrirætlana ríkisstjórna Benjamíns Netanjahú forsætisráðherra um enn frekari landtökubyggðir á landsvæðum Palestínumanna. Samtök landtökumanna segja að ríkisstjórnin hafi nú samþykkt nærri því tvö þúsund nýjar íbúðir á landtökubyggðum á Vesturbakkanum.